föstudagur, desember 22, 2006

Jólatréð í stofu stendur,

stjörnuna glampar á.
Kertin standa á grænum greinum,
gul og rauð og blá.

Já nú er jólatréð bara komið upp. Settum það upp á miðvikudagskvöld, gátum hreinlega ekki beðið lengur. Svo var tréð líka í stórhættu úti á svölum. Það hefði örugglega bara fokið út í veður og vind. Við þurftum alla vega að binda grillið okkar við svalirnar því það var bara farið að skauta fram og aftur!!! Stórhættulegt!!!

Núna er casual friday í vinnunni. Tilefnið er að það eru að koma jól og við ætlum að vera með vöfflukaffi hér seinna í dag. Finnst hálf kjánalegt að sitja hérna í gömlum buxum af Guðrúnu systur og í rauðum Converse skóm, en það verður bara að hafa það. Ég hefði að sjálfsögðu mætt í gallabuxum ef ég myndi nú bara passa í þær :D En þessar hermannabuxur eru sko það þæginlegasta í heimi svo þetta er bara allt gott. Reyndar voru nú sumir að brjóta casual regluna og mættu bara í jakkafötum og yfirmaður/kona mín segist finnast óþæginlegt að vera í gallabuxum. Hún er alla vega ekki í dragt í dag svo hún er bara nokkuð casual miðað við aðra daga kannski. Ég mætti með jólasveinahúfuna mína líka en hún verður bara sett upp í kaffinu. Svo fáum við að hætta fyrr í dag voða notó. Ég ætla að nota tímann og fara í Bónus að versla og vona að ég sleppi við allra mestu kösina. Held að ég sé búin að plata Guðrúnu systir með mér í þann leiðangur. Mig vantar nefnilega pokahaldara því ef ég er að lyfta mikið, þó það eru ekki nema innkaupapokar, fæ ég svo mikla samdrætti og það er ekki nógu sniðugt. Seinast þegar ég fór í stórinnkaup ein þá var ég allt kvöldið með þvílíka samdrætti. Lá bara upp í rúmi og reyndi að slappa af. Maður má víst ekki gera of mikið þegar svona kemur því maður vill nú ekki fara af stað mikið fyrir tímann.

Jóla jól, kaupa hjól

miðvikudagur, desember 20, 2006

Það á að...

...gefa börnum brauð að bíta í á jólunum. Kertaljós og klæðin rauð svo komist þau úr bólunum.

Jólaumferðin er alveg ótrúlega skemmtileg, finnst ykkur það ekki? Ji minn eini, segi ég nú bara. Enginn vill hleypa neinum og fólk malar í símann eins og það fái borgað fyrir það. Svona er hinn eini sanni jólaandi. Maður vill helst bara halda sig innan dyra, en það er bara ekki hægt þegar maður þarf að mæta til vinnu og á eftir að kaupa tvær jólagjafir.

Mig langar að nota tækifærið og minna fólk á að skrifa eitthvað fallegt í commentin, veit fyrir víst að nokkrir fjölskyldumeðlimir (þið vitið hverjir þið eruð) voru búnir að lesa bloggið mitt í gær en skrifuðu ekki neitt. Just do it! Ef ég leyfi mér nú að nota slagorð Nike ;)

Ég fór í meðgöngusund í gær sem er kannski ekki frásögu færandi, nema það að ég lagði extra snemma af stað því ég átti von á svo mikilli umferð. En svo var bara engin umferð og allir greinilega í Kringlunni, Smáralindinni og niðrí bæ. Ég beið þá bara smá tíma út í bíl svo ég þyrfti ekki að húka í sturtu endalaust. Við vorum síðan bara tvær í tímanum, voða notalegt. Greinilegt að margar hafa verið fastar í jólageðveikinni, eða bara hreinlega orðnar of þreyttar í jólaösinni til að mæta. Næsti og þarnæsti tími verða í Reykjavík, á Hrafnistu, frábært að þurfa ekki að keyra alla leið upp á Reykjalund svona rétt fyrir jólin og á milli jóla og nýárs.

Jæja blaður blaður blaður og um ekki neitt.
Adju

þriðjudagur, desember 19, 2006

Það heyrast jólabjöllur...

...og ofan úr fjöllunum fer, flokkur af jólakörlum til að gantast við krakkana hér!!

Jæja senn líður að jólum og það er ekta íslenskt jólaveður úti, rok og rigning. Jibbí jei!! Jólagjafa innkaupin eru að verða komin, fórum í gærkvöldi í Smáralindina og náðum bara alveg að gera heilan helling á einum og hálfum tíma. Powershopping!! Svo er búið að pakka þessu öllu saman inn og allt reddí bara. Ég hef nefnilega óstjórnlega þörf fyrir að klára að pakka inn um leið og gjöf er keypt, hef ekki verið svona áður svo ég er að velta fyrir mér hvort þetta gæti tengst óléttunni. Venjulega sat maður á gólfinu inn í herbergi á þorláksmessu og pakkaði öllu klabbinu inn þá. Núna er bara komin the ultimate packingstation á borðstofuborðið og allt til alls :) I like it og leyfi Bigga greyinu ekki að koma nálægt innpökkun. Nema náttúrulega á jólagjöfinni frá honum til mín :)

Þetta verða að öllum líkindum bara róleg jól. Aðfangadagskvöld verðum við í sitthvoru lagi, ég í Haðalandinu en Biggi í Grundarásnum. Svo á jóladag verður víst ekki jólaboð í minni fjölskyldu í fyrsta skipti síðan ég man bara ekki hvenær, þannig að ég verð bara á náttfötunum til svona kl. 17. En jólaboðið hjá ömmu og afa hans Bigga er að sjálfsögðu á sínum stað á jóladagskvöld með öllu tilheyrandi. Þannig að núna förum við bara í eitt boð á jóladag. Svo ætlar mamma að bjóða okkur í mat annan í jólum svo að við verðum eitthvað öll saman með tengdasonunum líka :) En ætli maður verði ekki bara í rólegheitum svo um áramótin því áramótaboðið í fjölskyldunni minni verður víst ekki heldur. Það eru bara allir að leggja niður hefðirnar...usss. Það hentar mér reyndar ágætlega að jól og áramót verði bara róleg því þetta er tími sem ég þarf að nota til að hlaða svolítið batteríin svo ég geti haldið áfram að vinna fulla vinnu eitthvað áfram. Maður er nú ekki alveg eins orkumikill og maður var hérna áður...gæti sofnað oft á dag fram á borðið mitt...hehe

Jæja nóg af þessu blaðri í bili

mánudagur, desember 11, 2006

Broddgöltur?

Nei mannbroddar!!! Já ég hélt að ég myndi nú aldrei láta sjá mig með svoleiðis á ævi minni (maður er nefnilega svo kúl!!) En ég fór nú bara í hádeginu í dag og fjárfesti í mannbroddum. Takk fyrir og góðan daginn!! Maður getur nú ekki verið það bjargarlaus að komast ekki heim að dyrum því tröppurnar heima eru bara dettigildra fyrir óléttar konur. Mæli með því við allar óléttar konur að eiga svona til, þó ekki sé nema bara til að komast inn og úr bíl heima hjá sér.

Þetta voru viskuorð dagsins :D

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Þú verður ferlega stór!!!

Þessa setningu er ég búin að heyra oftar en einu sinni á meðgöngunni og ég á 3 og hálfan mánuð eftir!! Það eru reyndar bara tvær manneskjur búnar að segja þetta við mig en þær hafa sagt þetta oftar en einu sinni hvor um sig. Og hvaða máli skiptir það þær hvort ég verð stór eða ekki????? Þær eru alveg að gleyma að taka það inn í reikninginn að ég er nú ekki einu sinni 160 cm á hæð og þær slaga báðar hátt í tvo metra, kannski ekki alveg. Þetta eru konurnar á símanum hérna í vinnunni og þær virðast hafa rosalega áhyggjur af því að ég springi bara. Það hlýtur að vera kommon sense að álykta að ekki sé jafn mikið pláss í mínum líkama fyrir barn og hjá manneskju sem er amk 10-15 cm stærri en ég. Ég er bara akkúrat í kúrfunni hvað legbotninn varðar svo ég er ekkert með stærra barn en aðrar konur sem eru komnar jafn langt og ég. Við prinsinn höldum okkur bara í meðaltalinu og höfum ekkert þyngst fram úr hófi heldur. Ferlega pirrandi að fólki finnist bara allt í lagi að segja það sem því finnst við mann bara af því að maður er óléttur. Er ég einhver almenningseign af því að ég er ólétt??? Er maginn minn ekki mitt friðhelgi??? Finndist fólki eðlilegt að ég myndi ganga upp að kunningjakonu minni og grípa um brjóstin og spyrja hvað sé langt síðan hún lét laga á sér brjóstin?? Eða ef ég myndi segja við konurnar á símanum frammi: ferlega verður þú ófríð og krumpuð gömul kona!!!!

Ég er ekkert pirruð, neinei, híhí.

þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Jæja jæja

Þá er kominn tími á nýtt blogg.

Svakaleg bökunarhelgi á enda og útlandahelgi framundan. Það er alltaf nóg að gera!! Ákvað að drífa í smákökubakstrinum og vera búin að því áður en við færum út til Köben. Það heppnaðist svona vel og ég er bara búin að baka allt. Fjórar tegundir, hafrakexið og skinkuhorn. Var reyndar líka alveg búin á því á sunnudagskvöld, en fékk fótanudd hjá Bigga ofurnuddara.

Þessi vika fer bara í rólegheit, undirbúining fyrir Danmerkurferðina. Förum á föstudagsmorgun og komum aftur sunnudagskvöld. Við ætlum að reyna að fjárfesta í vagni þarna úti. Búin að finna búð í Valby sem selur vagninn sem mig langar að kaupa. Á bara eftir að fá svar frá þeim hvort þeir eigi vagninn á lager. Vona að þeir svari mér áður en við förum út. Annars er bara að gera sér ferð í búðina og tékka á þessu.

Já vikan átti að fara í bara rólegheit en ég var svo aktív eftir vinnu í gær að ég skellti mér í Blómaval. Keypti smá dóterí til að gera aðventukrans og er búin að útbúa kransinn og hann stendur tilbúinn á borðstofuborðinu og bíður eftir fyrsta í aðventu. Svo erum við búin að setja eina ljósastjörnu í stofugluggann og ég (eða Biggi reyndar) er búin að setja litlar sætar jólakúlur í eldhúsgluggan. Svo jólin eru svona að skríða hérna inn hægt og bítandi. Ákvað að geyma það að kveikja á jólalyktarkertinu mínu þar til við komum heim frá Köben því þá verður líka kominn desember og þá má vera meira jóló.

Jæja nóg af mér í bili, ætla að koma mér í rúmið núna

Jórunn jólahjól

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Nýtt hreiður

Ekki það að ég sé að flytja milli íbúða, heldur vorum við að kaupa okkur nýtt rúm. Loksins!!! Erum bara búin að vera að hugsa það í ár. Fórum meira að segja og skoðuðum rúm í janúar. Maður er alltaf svo seinn að öllu. Alla vega...þá keyptum við okkur svona Tempur heilsudýnu í Betra Bak og ég hlakka svo til að fara sofa í kvöld. Rúmið er svona heldur stærra en gamla rúmið okkar, eða 160 cm á breidd. Ætli ég eigi ekki bara eftir að sakna Bigga!! Munar nú alveg 25 cm á nýja og gamla, þvílíkur lúxus!! Ég kem kannski með fréttir á morgun hvernig fyrsta nóttin gekk ;)

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Smá svona

Þreytta ólétta konan ætlar að reyna að blogga eitthvað en er bara svo þreytt að henni dettur ekkert sniðugt í hug, hmmmmm....

Styttist óðum í Köben ferð á julefrukost í Tivoli-inu. Akkúrat sömu helgi á að vera eitthvað húllumhæ hérna í vinnunni hjá mér. Hversu týpískt er að þetta hittist á sömu helgi!! Það verður ferlega notalegt að komast til Köben með honum Bigga mínum, og ekki skemmir fyrir að Fuglar verða með í för og maður getur kynnst fullt af nýju fólki.

Annars erum við að spökúlera í að flýja borg óttans um helgina, og þar með partýin á efri hæðinni..hehe. Ferðinni yrði þá heitið norður á Akureyri. Helgi er alveg æstur í að fá Bigga á bretti og að öllum líkindum á að fara opna í Hlíðarfjalli. Ég er nú ekki svo viss um að ég muni taka skíðin mín með en mig langar ferlega mikið að geta rennt mér nokkrar salíbunur. Það á nú að vera allt í lagi að fara á skíði óléttur, en mig langar bara alls ekki að detta eða svoleiðis því ég er orðin aðeins þyngri á mér og ekki alveg eins snar í snúningum og áður. En ég hlýt að geta fundið mér eitthvað til dundurs á Akureyri. Ég á nú frændfólk þar sem ég hef ekki séð mjög lengi og svo á ég eina vinkonu úr Hússtjórnarskólanum sem ég hef ekki séð í yfir 3 ár og hún á nú orðið tvo sæta stráka. Svo verða Hrönn og Kristinn Ari fyrir norðan í heimsókn líka. Svo ekki hafa áhyggjur af því að mér leiðist. Nú ef enginn vill síðan hitta mig þá er ég með eitthvað á prjónunum ;) í orðsins fyllst merkingu.

Ætli það sé nokkuð annað í fréttum að þessu sinni, jú jólaskapið er aðeins farið að læðast að mér, í fyrra fallinu þetta árið. Ætli það sé ekki bara af því að þegar jólin verða komin þá eru ekki nema rúmar 10 vikur í krílið mitt :D Mig langar bara að fara baka smákökur og setja smá ljós í glugga og hlusta á jólalög. Ætlaði að baka og hlusta á jólalög um helgina en það kemur helgi eftir þessa helgi.

Jæja, búin!!

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Partý hartý

Já það er greinilegt að það flutti partýfólk í íbúðina fyrir ofan okkur :( Það væri nú í lagi ef þau gætu drullast til að ganga hljóðlega um sameignina og ekki talað svona bilað hátt þegar þau eru fyrir utan húsið. Eins og þeir vita sem komið hafa heim til mín þá er inngangurinn á sömu hlið og allir svefnherbergisgluggar eru, þannig að ég er farin að vakna ansi oft upp snemma á laugardags og sunnudagsmorgnum við að fólkið er að koma heim af djamminu. Oftar en ekki er einhver með þeim og þá er bara "JÁ VIÐ PÖNTUM OKKUR BARA PIZZU!!" sagt með fyllerís háværri rödd. Eða að þau eru að tala í símann og ekki lágt. Skemmtilega, skemmtilega fólk sem fer alltaf seint að sofa og gengur um eins og heil fílahjörð. En svona er að búa í fjölbýli og núna langar mig ekkert meira en að flytja í tvíbýli eða bara hreinlega einbýli!!! Spurning um að vera leiðinlegi gaurinn og hringja og kvarta í leigusalann þeirra ef þetta heldur áfram að vera svona helgi eftir helgi.

Annars vorum við partýfólk á laugardaginn, en ekki heima hjá okkur, Egill og Edda buðu í hrekkjavökupartý. Egill bauð okkur í mat áður og eldaði dýrindis mat úr nýju dýru pottunum sínum. Mjög gott hjá karlinum :) Allir voru í búningum um kvöldið og við Biggi ákváðum að fara sem hvort annað og það var nú ágætis lífsreynsla. Naut þess að horfa á Bigga leika ólétta konu...hehe...eins og hann hafi aldrei gert neitt annað!!! En við erum klárlega orðin slappa fólkið því við vorum bara orðin þreytt og farin heim um miðnætti...geysp. Ég var reyndar búin að vera í búðarrápi með mömmu allan daginn svo það var nú kannski ekki svo skrítið að ég væri aðeins farin að geyspa.

Vinnuálagið á Bigga mínum er ekkert að minnka og bara búið að aukast ef eitthvað er. Hann vinnur til rúmlega tíu á kvöldin. Hressandi!!! En þetta fer vonandi að verða búið og við erum að vonast til að geta eytt sunnudeginum eitthvað saman. Varla búin að hittast í örugglega meira ein rúma viku :S Vona að það verði nú ekki mikið um svona rosalegar vinnutarnir eftir að krílið kemur í heiminn! Ég segi nú bara "shake your moneymaker" og hristi Bigga smá til.

þriðjudagur, október 31, 2006

Rólegt og crazy

Helgin var svona beggja blands. Á laugardaginn fór ég með Hrönn í búðarráp. Fórum í Kringluna og röltum búð úr búð. Takmarkið var að finna skó á Hrönn og bikiní á mig. Ég fann bikiníið í fyrstu búðinni sem ég fór í, Útilíf. Þannig að ég er reddí í meðgöngusundið á fimmtudaginn :) En það var ekki svo auðvelt með skóna. Þegar við vorum blessunarlega búnar að fara í allar skóbúðirnar hringdi Haukur og þá var Kristinn Ari vaknaður og vildi sko fá mömmu sína heim takk fyrir. Svo gert var stopp til að hvíla lúin bein, næra sig og Kristinn. Svo þegar hann var farinn aftur út að lúlla fórum við í Smáralind og héldum áfram leiðangrinum. Hrönn fann á endanum hrikalega flott stígvél, reyndar svolítið meira spari en hún hafði hugsað sér. Hún fór svo daginn eftir og keypti þau...vúhú gella ;)

Við Biggi ákváðum að skella okkur í bíó á Mýrina um kvöldið. Vorum mætt í Smáralindina svona ca 5-10 mínútum áður en myndin átti að byrja. Viti menn það var þvílíka röðin...við sem héldum að allir væru bara á djamminu. Við fengum þó miða en Hulda og Gummi (vinir Bigga) fengu ekki miða og þau voru rétt fyrir aftan okkur í röðinni. Við gátum reyndar ekki setið saman :S ég sat í sætinu beint fyrir ofan Bigga, spes. Myndin var mjög góð og gaman að sjá íslenska mynd í þessum standard.

Biggi þurfti svo að vinna líka á sunnudeginum, eins og á lau. Þannig að ég ákvað að nýta daginn í þrif. Þreif alla íbúðina hátt og lágt, skipti um á rúminu og þreif rimlagardínurnar í stofunni. Ég hreinlega gat ekki stoppað mig!!! Eldaði svo dýrindis spaghetti og hakkbollur með pastasósu...nammi namm og naut þess að sitja í hreina sófanum mínum og anda að mér hreina loftinu í íbúðinni :)

Þannig var nú helgin mín, hvernig var helgin þín?

þriðjudagur, október 24, 2006

Ný síða

Ég er búin að búa til meðgöngusíðu á barnalandi. Ákvað að gera það því ég vil nú kannski ekki að allir séu að lesa eitthvað sem stendur mér svona rosalega nærri slóðin er http://www.barnaland.is/barn/49471 og síðan er að sjálfsögðu harðlæst svo þið þurfið að senda mér tölvupóst til að fá aðgang. Ég set svo myndir þarna inn, sónar og skelfingarbumbumyndir ;) Ég er svo gleymin þannig að ef ég ætla að muna eitthvað eftir meðgöngunni seinna meir er þetta eina leiðin ;)

Ég vil líka endilega biðja ykkur sem vitið leyniorðið að láta það ekki berast. Segið fólki sem hefur áhuga að senda mér tölvupóst því ég vil vita hverjir lesa þetta. Bara smá regla sem ég vil hafa þarna á. Og endilega skrifið í gestabókina :D

mánudagur, október 23, 2006

Skýrslan

Þá erum við búin í 20. vikna sónarnum. Allt leit mjög vel út og allt á sínum stað. Fyndið að fá að sjá litla heilann í barninu og nýrun og þvagblöðruna og alles. Krílið var nú þvílíka krúttið og gerði smá kúnstir fyrir okkur, lagði hönd á vanga, alveg eins og svefnstellingin mín er. Jeij það fær þá eitthvað frá mér!!! Alveg merkilegt hvað maður getur séð á þessum myndum, mér sýnist óhakan mín ekki erfast, sem betur fer. Óhaka er s.s. engin haka fyrir þá sem ekki náðu þessu orðalagi mínu :)

Mamma og mamma hans Bigga fengu að vera hjá okkur og fyndið að heyra í þeim...öll jiii-in og flissið...haha...veit ekki hverjir voru spenntastir. Það var ljósmóðurnemi hjá okkur sem fékk að spreyta sig eftir að ljósan var búin að finna allt, þannig að við fengum að vera extra lengi. Bara gaman en mér var orðið ansi kalt á maganum...brrr...alveg við frostmark.

En jæja við fengum líka að vita kynið. Báðum um að fá að vita það ef krílið vildi sýna okkur. Ljósan hélt það nú, það væri nú þegar búið að sýna henni það strax. Og þarna var lítill tippalingur eins og ljósan sagði. Mjög fyndið að sjá þetta svona á risa sjónvarpsskjá...haha. Þannig að við eigum von á litlum prins 12. mars. En mér var seinkað um 4 daga. Ekki alveg það sama og mínir útreikningar, skv. þeim hefði átt að flýta okkur um 2-3 daga en jæja vika til eða frá er nú ekki mikið og svo kemur pjakkurinn örugglega bara nákvæmlega þegar honum hentar.

Jæja þetta var skýrsla föstudagsins :D

föstudagur, október 13, 2006

Vááááá....

...hvað tíminn er fljótur að líða. Ég hélt að hann myndi gjörsamlega bara standa í stað þar sem ég er að bíða eftir að líf mitt breytist algjörlega í mars. Á fimmtudaginn verð ég hálfnuð með meðgönguna!! Mér finnst svo stutt síðan ég var að pissa á einhvern pinna og beið eftir að sjá hann vera neikvæðan, var ekki alveg að trúa því að nokkuð væri að gerast. En viti menn blússandi jákvætt og margt gengið á síðan á þessum stutta tíma. Þá er bara að vona að næstu 20 vikur verði líka svona fljótar að líða því við erum orðin svo spennt að sjá þennan litla einstakling sem heldur partí í bumbunni minni. Hvernig mun það líta út, verður það líkara mér eða Bigga eða bara engum? Verður það með hár og þá dökkt eða ljóst? Hversu krúttlegar verða tærnar og puttarnir? Dísús...og svo er allt dóteríið sem fylgir litlu barni sem þarf annað hvort að fjárfesta í eða fá lánað. Hvernig í ósköpunum á maður að vita hvað þarf?? Nægur tími til að fara yfirum en ef sá tími verður svona fljótur að líða þá á ég eftir að fara heim með barnið í poka og láta það sofa í kommóðuskúffu...hehe. Nei ég segi bara svona. Bara miklar pælingar í gangi þessa dagana og við erum orðin spennt fyrir því að fara í sónar eftir viku. Við ætlum að athuga hvort krílið vill sýna okkur hvort það er strákpjakkur eða stelpurófa svo nú er rétti tíminn til að setja veðmálin í gang.

Hverjir segja strákur og hverjir segja stelpa???? Put it in the comment please :)

þriðjudagur, október 10, 2006

Kaupmannahöfn

Nú er ég farin og komin frá Kaupmannahöfn. Þetta var styðsta ferð sem ég hef farið út fyrir landsins steina, en ein af þeim betri þrátt fyrir það. Það var bara yndislegt að geta verið í afslöppun og þó miklu labbi með allri fjölskyldunni. Unnur knúsaði bumbubúann vel og varð óvart sú fyrsta sem fann hreyfingarnar, fyrir utan mig. Ég er nú búin að vera með smá samviskubit yfir því að hún hafi fundið hreyfingarnar á undan Bigga, en ég get ekkert að því gert. Sorrý elsku Biggi minn. Þú ert greinilega bara með þykkari húð eða eitthvað svoleiðis í lófunum :(

Það var margt brasaði í Kóngsins Köben. Við vorum mætt seint á föstudagskvöldi og tókum lestina til Valby. Ákváðum að taka leigubíl frá lestastöðinni þar sem við rötuðum ekki í íbúðina. Leigubílstjórarnir vissu nú ekki heldur hvar hún væri þrátt fyrir að vera gefin upp heimilisfangið. Endaði með að við Biggi sögðum við bílstjórann: "just follow that car". Hann skildi það með herkjum innflytjandinn. Eftir mjög svo stutta bílferð komum við í íbúðina og settumst í sófana, mamma og pabbi bönkuðu þá uppá hjá nágrannakonu Ástu frænku því hún átti að vera með lykilinn að herberginu í kjallaranum sem við fengum aðgang að. Hún var svo ekkert heima og þá voru nú góð ráð dýr því við vorum ekki með símann hjá henni og svolítið erfitt að hringja til Kína þegar maður veit ekki alveg hvað klukkan væri hjá Ástu frænku. Pabbi hringdi þá í Sillu frænku til að fá símann hjá Tinnu frænku ef ske kynni að hún vissi símann hjá Elínu, nágrannakonunni. Tinna var ekki með símann en ætlaði að athuga hvort önnur vinkona Ástu væri með símann hjá henni. Sú téða vinkona ansaði ekki í símann svo Tinnu datt svo snilldarlega í hug að pabbi myndi athuga í póstkassann hennar Ástu og viti menn, þar var lykillinn ásamt miða með orðsendingu. Jeij fyrir Tinnu :) Svo komu Unnur og Danni ásamt vinum sínum Emblu og Eiríki sem fylgdu þeim til okkar.

Á laugardeginum var ræs mjög snemma, eða um kl. 8. Ferðinni var nefnilega heitið í Field's. Við kjarnafjölskyldan vorum svo ekki mætt þangað fyrr en um kl. 11, strákarnir fóru í smá útréttingar. Ég skemmti mér nú ekki vel í þessu molli og leið bara frekar illa þar. Var þreytt og illt í fótunum mínum. Svo var mikill hávaði því það var einhver tískusýning, og allt of heitt!! En ég náði samt að versla mér aðeins í H&M, reyndar ekkert í bíðufatadeildinni (ventetoj=óléttuföt). Svo kíktum við Biggi aðeins í Next, engin bíðuföt þar, en við keyptum pínkulítið á krílið. Samfellur og lítið sett, buxur og peysa...krúttlegast!!! Við héldum svo öll heim á leið þreytt og sumir með poka í farteskinu. Slökuðum svo á þar til við þurftum að hafa okkur til og koma okkur yfir til Svíþjóðar. Þurftum svo að standa alla leiðina til Malmö, um 30 mínútur því lestin var sneisafull af Svíum á heimleið. Fundum svo mjög fljótt veitingastaðinn sem betur fer því það var farið að rigna á okkur. Verð bara að segja það að þetta var besta máltíð sem ég hef á ævi minni borðað, fékk mér piparsteik sem var bara þvílíkt góð og Créme Brulé í eftir mat...ammi nammi namm!!!! Yndislegt alveg hreint.

Við ákváðum að fara á sunnudeginum í dýragarðinn, löbbuðum því hann var bara rétt fyrir ofan íbúðina. Sáum öll fínu dýrin og birnirnir og ísbjörnin voru skemmtilegastir, ísbjörninn sýndi þvílíka takta, hef bara aldrei séð dýragarðsdýr á eins miklu iði. Tók fullt af myndum af dýrunum. Danni þurfti svo að halda heim á leið til Kolding, en Unnur tók þá góðu ákvörðun að vera einum degi lengur og sagði bara skóli smóli!!! Hehehe. Allir voru þreyttir eftir allt röltið í dýragarðinum svo það var tekin sú ákvörðun að fara bara í 7/11 og kaupa drykkjarföng og sækja pizzu á bakaleiðinni. Svo spiluðum við, öll nema pabbi því hann er ekki mikill spilakarl. Við spiluðum Ólsen, Pesten og Bullshit. Mamma snilli lét okkur gráta úr hlátri, hélt ég myndi kafna á tímabili og á öðru tímabili var ég næstum farin að gráta í alvörunni, veit ekki alveg af hverju en ég bara gat ekki hætt að hlægja og þá fór ég að hugsa hvað það getur verið stutt milli hláturs og gráturs og þá allt í einu vissi ég ekki alveg hvort ég ætti að vera að gera, hmmm...hormones!!! Ég sleppti því samt snarlega að gráta því það hefði bara hreinlega ekki verið kúl og hélt mig við það að hlægja.

Á mánudeginum fórum við svo í bæinn. Röltum um Strikið og fórum upp á Nörreport til að reyna að finna pensla fyrir vatnslitamálningarnámskeiðið hennar mömmu. Það skilaði ekki árangri. Kvöddum svo fólkið um kl. 16 og fórum og hittum Gumma Snorra æskuvin Bigga. Við ákváðum að fara á Ripley's Belive it or Not safnið, en við vorum mikið að pæla í að fara þangað um páskana en létum ekki verða af því. Gummi Snorri hafði einmitt oft verið í sömu pælingum svo við bara skelltum okkur. Þetta olli því að mér varð mikið illt í fótunum og í bakinu líka, úff. Röltum svo upp á Strikið og setumst niður og fengum okkur vökva til að svala þorstanum. Fórum svo á pizzastað nálægt lestarstöðinni, ekki besta pizza sem ég hef fengið en lét mig hafa það. Þegar við sóttum svo töskurnar voru fullt af Íslendingu að brasa við að koma öllu draslinu sem þau höfðu keypt í bænum í töskurnar. Við keyptum okkur reyndar líka aðeins á Strikinu en höfðum sem betur fer meira en nóg af lausu plássi. Í lestinni á leiðinni á Kastrup voru mikil læti í íslenskum kerlingum á leiðinni heim líka...dísús lætin maður. Við reyndum að vera á undan þeim í check-in en það tókst ekki því við þurftum að ná miðunum okkar úr hólfi framan á annarri ferðatöskunni. Kerlingarnar lentu að sjálfsögðu í vandræðum því þrjár af þeim voru að tékka sig inn saman og þær voru samtals með rúmum 30 kg. meira en leyfilegt var og voru svo bara hissa og pirraðar yfir að konan ætlaði að rukka þær fyrir yfirviktina, 100 Dkk fyrir hvert kíló. Við sáum þær svo uppi þar sem þær voru að tala við fólk og þeim tókst að komast hjá því að borga með einhverri lagni. Erum að tala um að þær voru búnar að opna allar töskurnar til að "hagræða" til að létta þær. Bara fyndið. Flugið var svo óþæginlegt í alla staði, of heitt, illt í fótum og gat ekki sofið. Svo nú er ég þreytt en tókst samt að skrifa lengstu bloggfærslu sem ég hef nokkurn tíma skrifa...og mun nokkurn tíma skrifa.

Ég ætla ekki að skrifa lengur því þetta er orðið óeðlilega langt. Til hamingju þú þessi eina hræða sem nenntir að lesa þetta allt. Því miður eru engin verðlaun í boði, nema kannski Freyju möndlur ef þú nennir að kíkja í heimsókn í Kópavoginn ;)

þriðjudagur, október 03, 2006

Hálfvitaskapur!!

Þeir sem lásu Blaðið í morgun vita væntanlega um hvað ég er að tala. Forsíðan var sko nóg til að ég fengi grænar bólur yfir morgunmatnum!!! Þar er grein um ungan strák, tvítugan, sem finnst ekkert skemmtilegra en að keyra hratt. Hann er búinn að missa bílprófið núna í 3 mánuði eftir að hann keyrði á 100 km hraða innanbæjar. Hálfviti!!!! Hann hefur orðið valdur af a.m.k. þremur umferðaóhöppum. Hálfviti!!! Hann langar í kraftmeiri bíl en segist aldrei setja farþega sína í hættu heldur keyri hratt þegar hann er einn í bíl. Hehemm...hvað með alla aðra í umferðinni fíflið þitt!!! Hann gerir sér grein fyrir að hann geti dáið en vilji ekki deyja vegna hraðans. Svona menn á bara að taka úr umferðinni!!! Eftir þessa grein ætti lögreglan að gefa út skipun um að um leið og hann fær bílpróf eigi óeinkennisklæddir lögreglumenn að elta hann hvert fótmál, taka hann á skrilljón kílómetra hraða og svipta hann fyrir lífstíð!!! Það er allt of mikið af svona fávitum í umferðinni sem bera ekki neina virðingu fyrir sínu eigin lífi og hvað þá annarra. Ég hef mjög sterkar skoðanir á þessu og finnst ekki nógu hart tekið á hraðakstri. Ég held mig yfirleitt innan löglegra marka og t.d. í gær var ég að keyra með Ingu vinkonu, hún var að keyra, í hádeginu Kringlumýrabrautina og hún var komin á dágóðan hraða og fólk var samt að keyra fram úr okkur á skrilljón!! Ég held mig nú yfirleitt bara á hægustu akreininni og keyri á þeim hraða sem á að gera og ég sé milljón manns alltaf keyra fram úr mér og svo lendi ég kannski við hliðina á því á næstu ljósum. Hvað er pointið með að keyra svona hratt, þú kemst ekkert fyrr á áfanga stað!!! Ég er oft hrædd um líf mitt og ófædds barns míns í umferðinni. Af hverju er ekki bara hægt að svipta fólk for life ef það sýnir vítavert gáleysi í umferðinni með hraðakstri og montar sig svo af því í blöðunum hversu æðislegt adrenalín kikk það fær út úr því!!!!

Mér er spurn!!

fimmtudagur, september 28, 2006

Draumar!!

Mikið rosalega dreymir mig orðið skrítið. Í morgun vildi ég ekki vakna því mig var að dreyma að um leið og ég vaknaði þá yrði farið með mig beint inn á skurðstofu, keisaraskurður framkvæmdur og tvíburarnir mínir teknir. Hmmm...þá er bara stóra spurningin, ætli það sé annað kríli sem er búið að vera að fela sig allan þennan tíma? Hummmm interesting!!! Það er nú alveg nóg að eignast eitt svona til að byrja með svo við skulum bara vona að sónarmyndirnar séu ekki að ljúga og það sé bara eitt takk fyrir.

Annars er ég komin 17 vikur í dag, fyrir þá sem vilja vita svona hluti. Ég ætla að reyna að byrja á hreiðurgerðinni þó að það sé ekki nærri tímabært. Kominn tími til að byrja á jólahreingerningunni. Sagði þetta við Bigga í gær og hann hélt að ég væri bara orðin klikkuð því september er jú bara rétt að klárast og langt í jólin. En ég verð örugglega orðin þyngri á mér þegar nær dregur jólum og þá nenni ég ekki að vera að þrífa og príla til að taka skápana í gegn. Hann var svo sætur að segja, "ég get alveg þrifið jólahreingerninguna". En svona vil ég bara hafa þetta Biggi minn og það er held ég ágætt að taka bara eitt herbergi í einu, því þau eru svo mörg ;), og þá verða þetta bara notaleg þrif og tiltekt. Er meira að segja búin að gera lista yfir það sem ég ætla að gera á næstu dögum og vikum. Hehemm...já ég á það til að reyna að skipuleggja mig á fyndinn hátt :)

Prjónadísin kom yfir mig í gær og ég prjónaði heila skálm á babybuxur í gær, geri aðrir betur. Finnst hún frekar skrítin en hún á örugglega bara að vera þannig, vonandi!! Jæja er þetta ekki komið gott í bili

adju

mánudagur, september 25, 2006

ZZZZZZZZZZ

Hvað er málið með að líkaminn vilji ekki sofa á næturnar?? Eða þetta var kannski frekar bara heilinn sem var ofvirkur í nótt. I need the sleep and lots of it!!! Vaknaði um miðja nótt upp frá draumi. Dreymdi að við vorum að gifta okkur og það var svo mikið vesen út af barninu. Þá gat ég náttúrulega ekki hætt að hugsa um það að það verður kannski vesen, kannski þarf barnið að drekka akkúrat þegar við eigum að setja upp hringana, eða verður brjálað og grenjar út athöfnina. Maður er sko ekki í lagi þessa dagana. Þetta er seinna tíma vandamál Jórunn og fyrsta mál á dagskrá er að sjálfsögðu að finna prest til að gefa okkur saman!!! Presturinn sem við vildum verður í fríi akkúrat í júlí svo við þurfum að leita á önnur mið. Við erum jú búin að panta Kópavogskirkju fyrir athöfnina. Þannig að þá erum við komin með sal og kirkju svo er bara að halda áfram að vera duglegur. Ef þið vitið um einhverja æðislega presta megið þið endilega láta okkur vita. Má ekki vera of væminn og dramatískur prestur takk :)

Ég er of þreytt til að finna upp á einhverju fleiru sniðugu til að segja í bili. Gæti vel sofnað fram á borðið mitt og nenni ekki með neinu móti að standa upp til að ná í möppu sem ég þarf að kíkja í!!!

fimmtudagur, september 21, 2006

16 vikur búnar...

...og um 24 vikur eftir.

Mér fannst þetta búið að vera svo ótrúlega fljótt að líða en núna silast tíminn bara áfram. Fyrstu 12 vikurnar voru svo fljótar að líða, þó að við höfðum vitað þetta frá bara viku 4!!! Kannski var það af því að það vara sumar og sumarið er alltaf búið áður en maður veit af. Svo var ég líka í skólanum í ágúst og hafði ekki einu sinni tíma til að hugsa. Þannig að allt í einu vorum við bara búin að fara í fyrstu mæðraskoðun og hnakkaþykktarmælingu. Núna er ég búin að vera að bíða og bíða eftir að fara aftur í mæðraskoðun, hlakka svo til að heyra hjartsláttinn aftur :D Kannski er tíminn líka lengi að líða af því að ég er að bíða eftir að fara til Köben sem verður í sömu viku og mæðraskoðunin...vúhú...allt gerist á sama tíma!!!

Annars fór ég í búð í gær, sem ætti ekki að vera frásögufærandi en er það samt, það er ansi langt síðan ég fór í búð og verslaði fyrir nokkra daga. Ísskápurinn er búinn að vera mjööög tómur að undanförnu. Alla vega þá skellti ég mér í Krónuna í Skeifunni og ó mæ hvað það er ekki spes búð. Hún er alveg hræðinleg, Bónus búðirnar eru svo margfalt betri!! Ég fékk ekki allt sem var á listanum mínum svo ég ákvað að skella mér í Hagkaup til að pikka upp restina. Haldiði að ég hafi ekki borgað jafn mikið fyrir þessa nokkra hluti sem ég keypti í Hagkaup og fyrir allt sem ég keypti í Krónunni!! Tvöþúsund kall á hvorum stað! En ég eldaði að minnsta kosti í gærkvöldi sem er meira en ég get sagt að hafi gerst í langan tíma. Er alveg búin að vera í letinni og þreytunni. Samlokurnar voru farnar að vera frekar þreyttur kvöldmatur...hehe. Kannski er orkan loksins að koma yfir mig. Við skulum vona það!

Svo fórum við í göngutúr um hverfið eftir að við vorum búin að ganga frá eftir matinn. Bara fyrirmyndar-par. En það var nú frekar kalt og lærin mín voru eldrauð þegar við komum til baka. Brrrrrr...veturinn er að næsta leiti!!!

mánudagur, september 18, 2006

Guð var svo góður...

...að hann gaf mér skít í stað heila.

Þessa snilldar setningu átti hún Guðrún systir mín í gær. Hún er eitthvað pirruð á stærðfræðinni þessi elska. Ég skil hana svooooo vel!!!

Var að skrá mig á námskeið, gaman :) Þetta mun vera meðgöngujóga-námskeið og ég byrja á mánudaginn. Ég var búin að skrá mig á annað námskeið í Lótus-setrinu en þar var biðtíminn til að komast að um 6-8 vikur. Mig langði svo að byrja núna strax þannig að ég fór bara á stúfana, á internetinu, og fann mér annað námskeið. Þetta námskeið er í Leikhöllinni í Hólmgarði í Bústaðahverfinu. Vissi ekki einu sinni að það væri fyrirtæki staðsett í Hólmgarði!!! Eníhú þá er hægt að fara síðan seinna meir á ungbarnanudd-námskeið þarna og alls konar. Bara gaman að því.

Hver fór á Nick Cave tónleikana á laugardaginn??? Ég fór!!! En mér hefði verið nákvæmlega sama þótt ég hefði misst af þeim. Dísús...ekki alveg það sem ég bjóst við og ég var nú bara í hálfgerðu sjokki!!! Maðurinn er bara búinn að pönka sig upp og þetta voru sko ekki notalegir tónleikar eins og maður átti von á. Ég hefði sennilega ekki þekkt "Henry Lee" ef hann hefði ekki kynnt það lag!!! Fjúff eyrunum mínum ofbauð að minnsta kosti mikið!!!

Jæja kominn tími á að hypja sig heim. Ætla að halda áfram að vera duglega að sauma útí skírnarkjólinn minn. Alveg að verða búin með verkið og held að ég verði bara mjög sátt við útkomuna...alla vega er ég sátt með það sem komið er só far.

Og bæ thö vei þá eru tæpar 3 vikur í að ég verði í Kaupmannahöfn með allri minni yndislegu fjölskyldu og unnusta og mági. Vúhú bara stuð á okkur sko!!!

fimmtudagur, september 07, 2006

Búmmtjaka búmbúm búmm...

...elsku bílinn minn blái.

Minn bíll er reyndar hvítur og hann virðist stundum vera nánast ósýnilegur í umferðinni. Alla vega er ansi oft búið að næstum því keyra mig niður á honum. Spurning að láta sprauta hann rauðan svo að það sé ekki bara horft í gegnum mann...hmmm...

Ég sá lögguna vera að taka einhvern á rosa flottum Audi áðan, fór nú ekki fram hjá mér þar sem löggan svínaði rosalega á mig bara til að geta keyrt inn á planið hjá McDonald's á eftir Audi bílnum. Ætli ökumaðurinn hafi ekki verið að tala í símann eða eitthavð álíka. Það er víst átak í að taka fólk á malinu þessa dagana.

Annars er ég bara ein í kotinu þessa dagana. Biggi fór í veiðiferð í gærkvöld með vinnunni. Fuglar að veiða fisk...svolítið skondið sko ;) Hann kemur svo upp úr hádegi á morgun og við ætlum að fara annað kvöld í bústað. Ekki til að slappa af...nei nei...með öll systkyn Bigga. Verðum 9 talsins frá aldrinum 8-24 ára. Held nú að það verði stuð á okkur!!! Biggi ætlar að reyna að fara að veiða með allt liðið, vona bara að það verði ekki mikil rigning...brrrr

Wehell...nenni ekki að bulla meir er að sofna hérna við skrifborðið mitt...zzzz...og þarf svo að fara í Bónus eftir vinnu og versla ofan í allan skarann...ennþá meira zzzzzz. Málið er að fara snemma að sofa í kvöld takk fyrir.

Góða nótt þó klukkan er bara 14

þriðjudagur, september 05, 2006

Fréttir af mér og mínum

Jæja þá er það orðið opinbert...lítill erfingi væntanlegur!! Áætlaður komudagur er 8. mars 2007. Mikill léttir að þetta er orðið opinbert og fer að verða ómögulegt að leyna þessu mikið lengur hvort eð er. Við erum að sjálfsögðu í skýjunum yfir þessu, ekki annað hægt sko :) Maður verður nú að vera virkur þátttakandi í óléttukeðjunni í saumaklúbbnum. Ég er núna þriðja í röð án þess að keðjan slitnar svo það er komin pressa á hinar skvísurnar að viðhalda þessu ;)

Jæja ekki meira að frétta í bili. Enda er þetta það stór frétt að hún fær alveg sér færslu ;)

mánudagur, september 04, 2006

Og það var...

...STRÁKUR!!! Já Hrönn mín er búin að eiga lítinn strák rúmum þremur vikum fyrir tímann. Hann var greinilega ekkert að grínast með að honum lægi á í heiminn. Hann var nú samt engin písl miðað við að hann kom svona aðeins fyrr. Held að ég hafi reiknað rétt út úr grömmunum að hann sé 12 og hálf mörk. Glæsilegt það! Sama dag var ég í brúðkaupinu hjá Ingu Maríu og Ingó. Sem var bæ thö vei ekkert smá glæsilegt. Allir svo glaðir og sælir og ljómuðu alveg hreint. Fólkið var pínulítið stressað í kirkjunni en geisluðu alveg hreint af hamingju og ást til hvors annars.

Innilega til hamingju Inga María og Ingó með þennan flotta dag :)

Innilega til hamingju Hrönn og Haukur með yndislega prinsinn ykkar, sem ég hlakka ekkert smá til að sjá ;)

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Afsbakið...

...leidís og germs

Mikil bloggleti búin að vera í gangi. Ekki mikið merkilegt búið að vera að gerast að undaförnu. Hef ekki tíma til að anda því ég er alltaf annað hvort í vinnunni eða skólanum og þar hafið þið það. Hehehe...kannski ekki alveg, fórum reyndar í frí frá 31. júlí til 4. ágúst...vúhú heil vika!!!! Fór mikið í afslappelsi, tvær nætur upp í bústað hjá mömmu og pabba, reyndum að gera eitthvað smá gagn og ég held að það hafi barasta tekist.

Annars er margt á döfinni. Erum að fara í brúðkaup á laugardaginn. Nú er komið að þessu hjá Ingu Maríu og Ingó. Hlakka mikið til. Það var alla vega mjög gaman að gæsa frúna og verður örugglega stuð í brúðkaupinu líka :) Svo á að skella sér til Köben í byrjun október. Pabbi litli á stórafmæli, sextugur karlinn, og hann og mamma eru bara að bjóða okkur öllum til Köben. Ætlum voða fínt út að borða til Malmö og njóta þess að vera öll saman, gaman saman. Hlakka mikið til. Svo eigum við nú miða á tónleika einhvern tíma í september á Nick Cave. Og svo er örugglega líka eitthvað annað að fara að gerast. Jújú ekki má gleyma elsku Hrönn og Haukur verða þriggja manna fjölskylda seinnipartinn í september ef litli labbakúturinn getur hægt á sér. Er eitthvað að reyna að hóta að koma fyrr anginn litli. Svo verður líka spennó að sjá hvort þetta er stelpa eða strákur, skv. fótafiminni þá held ég að þetta sé strákur en að öðru leiti grunar mig að þetta sé stelpa. Ég hef s.s. ekki hugmynd um það!!! ;)

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Eplið mikla!!

Nú er mín bara búin að fjárfesta í fyrstu tölvunni sinni :) Jeij...Ég skellti mér í Apple búðina og setti mig á biðlista fyrir MacBook fartölvu. Svo var bara hringt í dag og sagt að komið væri að mér á listanum og núna sit mér með tölvuna í kjöltunni og blogga....jeijjjj...svo gaman. Hún er hvít og algjör stelputölva. Spurning hvað ég ætti að láta hana heita....einhverjar hugmyndir???

Annars fór ég í útilegu um helgina. Fórum á tjaldsvæði sem var aðeins fyrir utan Laugarvatn. Þetta var fjölskyldu útilegan í fjölskyldunni hans pabba. Það koma samt oft fleiri, t.d. eins og systir mömmu og yngri bróðir mömmu og fleiri svona tengdir frá öðrum systkynum pabba. Við Biggi keyrðum þangað í hádeginu á laugardaginn, en náðum þrátt fyrir það að komast með í jeppaferðina. Það sem átti að vera 2ja til 3ja tíma ferð varð rúmlega 7 tíma ferð...hvorki meira né minna. Maður fékk sko að hossast ansi mikið og við lentum í honum ansi kröppum á einum tímapunkti, en allt fór vel á endanum og þetta var nú bara mjög gaman.


Það var reyndar rosalega kalt um kvöldið þannig að fólk var nú ekki mikið að sitja úti og spjalla. Held að flesti hafi bara farið frekar snemma að sofa. En svo var bara rosalega fínt veður upp úr hádegi á sunnudeginum og ég fékk smá brúnku í framan.

föstudagur, júlí 07, 2006

Bömmer!!!!

Við Biggi ætluðum að ættleiða litla kisustelpu, en það er víst ekki hægt lengur :( Biggi fór í ofnæmispróf í gær og er líka með svona svaðalegt ofnæmi. Hann er líka með svolítið hundaofnæmi. Arrrggg...ég sem er svo mikil kisukerling :( Við vorum búin að finna litla sæta kisu og ég var farin að hugsa um nafn á hana og alles...ekki gat ég nú látið hana halda áfram að heita Pétur ;) En svona fór um sjóferð þá :S Bigga leist meira að segja rosalega vel á þessa kisu...fannst hún sæt og skemmtileg. Ojæja við fáum okkur þá bara gullfisk sem ég get nefnt Kisa. Það er a.m.k. eitthvað...ha er það ekki?

Uss mér finnst það nú vera smá veikleikamerki að vera með ofnæmi...segi ég sem er með ofnæmi fyrir snakki af öllu!!!

Annars er það bara Laugavatn á morgun og fram á sunnudag með familíunni. Það er hin árlega fjölskylduferð í minni fjölskyldu. Alltaf gaman að fara öll saman í útilegu. Vona bara að það mæti sem flestir :D

Svo eru Íris, Óli og Mikael að koma óvænt á þriðjudaginn í næstu viku og verða út sumarið...jeij...ég hoppaði næstum í loft upp þegar ég fékk þessar fréttir!!!! Þau ætluðu ekki að koma fyrr en í ágúst og Íris ætlaði meira að segja að koma 17. ágúst. Nú fer sko sumarið loksins að byrja ;)

Jæja ætla að halda áfram að væla yfir kisuleysinu...búhú :(

adju og mjá

fimmtudagur, júní 29, 2006

Tiger Woods

Nú erum við hjónaleysin búin að fara á fyrsta tímann á golfnámskeiði. Jemms, við erum að reyna að breyta okkur í íþróttaálfa ;) Þetta námskeið er í boði Fugla ehf og verður gangandi í sumar. Svo verður hið árlega Fugla-mót í lok sumars...heheh...þá þarf maður að vera kominn með forgjöf og læti...hehemmm...veit nú ekki hversu vel ég á eftir að standa mig í þessu. En ég náði nú alveg að skjóta nokkrum sinnum smá vegis og þau skot voru tiltölulega bein, sem skiptir víst svolitlu máli.

Dagurinn í dag er eitthvað voðalega lengi að líða...skil það bara ekki. Mig langar bara að vera að plana brúðkaup og eitthvað í dag...hihi. Ég er búin að föndra boðskort, ein svolítið snemma í því. Er nú ekkert farin að framleiða, en ég er búin að búa til svona prototýpu. Við fórum nefnilega að skoða tvo sali í gær, þannig að maður er svona aftur farinn að pæla voða mikið í þessu. Ágætt að taka þetta svona í tímabilum. Fyrsta tímabilið er s.s. núna. Þurfum að bóka kirkjuna, prest og sal. Finna út hvert við leitum varðandi mat og drykk og svo getum við tekið það rólega í kannski svona 2-3 mánuði og fara þá aftur af stað og gera þá kannski gestalistann eða eitthvað.

Jæja lömbin mín, hef ekki meira að segja í bili

Hej hej

miðvikudagur, júní 21, 2006

Synda um höfin blá í sautján ár...

...eða bara í Árbæjarlaug. Jamm nú er mín bara að reyna að fara með Bigga í sund á mánudags-, miðvikudags- og föstudagsmorgnum. Er búin að fara þrisvar núna, fór reyndar ekki á mánudaginn því ég var alveg robboslega sybbin. Þetta gerir manni nú bara gott og eru 300 gr. farin síðan í síðustu viku. Gæti reyndar líka bara verið dagamunurinn.

Annars á ég frí eftir hádegi í dag. Ætla bara að fara að dunda mér eitthvað. Kíkja í búð, þvo bílinn og aldrei að vita nema maður sitji úti á svölum og lesi góða bók.

Fékk eina afmælisgjöf í gær, frá Hjördísi og Írisi og þeirra mönnum. Ég fékk rosa kósí og flott náttföt og bókina "the devil wears Prada". Æðisleg gjöf og þakka ég enn og aftur fyrir mig. Hlakka til að byrja á bókinni og lúllaði í náttfötunum í nótt og það var bara mjög mjúkt og gott.

Jæja verður maður ekki að halda áfram með smjörið svo maður getur komið sér í smá frí. Vona bara að sólin fari ekki í burtu.

Auf widersehen

fimmtudagur, júní 15, 2006

Skóli njóli

Hvað haldiði að hafi gerst í gær? Ég fór heim í hádegismat og ég kíki alltaf í póstkassann, haldiði að það hafi ekki verið bréf frá Háskólanum í Reykjavík. Ég er s.s. komin inn í viðskiptafræði...vúhú. Tek nám sem er kallað háskólanám með vinnu (HMV). Þannig að ég verð að vinna og í skóla, maður ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur skal ég ykkur segja. Þetta á eftir að vera brjáluð vinna, en örugglega mjög gaman.

Jæja bara stutt að þessu sinni

adju

þriðjudagur, júní 13, 2006

Fyndið!!!!!

Staðreyndir um karlmenn

1.HVERS VEGNA ERU KARLMENN GÁFAÐARI MEÐAN ÞEIR HAFA MÖK?
(vegna þess að þeir eru tengdir við snilling!)

2.HVERS VEGNA BLIKKA KONUR EKKI AUGUNUM MEÐAN ÞÆR HAFA MÖK? (þær hafa einfaldlega ekki tíma!)

3.HVERS VEGNA ÞARF MILLJÓNIR SÆÐISFRUMA TIL AÐ FRJÓVGA EGG?
(þær stoppa ekki til að spyrja vegar)

4.HVERS VEGNA HRJÓTA KARLMENN ÞEGAR ÞEIR LIGGJA Á BAKINU? (pungurinn fellur yfir rass gatið og stöðvar gegnumtrekkinn)

Þið eruð farnar að brosa núna stelpur, er það ekki? ;o)

5.HVERS VEGNA FENGU KARLMENN STÆRRI HEILA EN HUNDAR?
(annars væru þeir riðlandi á fótleggjum kvenna í kokteilboðum)

6.HVERS VEGNA SKAPAÐI GUÐ MANNINN Á UNDAN KONUNNI?
(þú þarft jú gróft uppkast áður en þú gerir lokaútgáfuna)

7.HVE MARGA KARLMENN ÞARF TIL AÐ SETJA KLÓSETTSETUNA NIÐUR? (hmm, veit ekki.....það hefur ekki gerst ennþá)

Einn góður í lokin...

8.HVERS VEGNA SETTI GUÐ KARLMANNINN Á JÖRÐINA?
(vegna þess að titrari slær ekki garðinn)

fimmtudagur, júní 08, 2006

spamadur.is

Þetta tarotspil dró ég á spamadur.is
8 stafir

Talan fjórir margfölduð með tveimur segir til um fjárhagslegt öryggi þitt og jafnvægi. Áttan táknar veraldleg gæði sem í þessu tilfelli tengjast líðan þinni á jákvæðan hátt.

Þér er ráðlagt að treysta því að hlutirnir verði eins og þú ein/n vilt og að þér sé ætlað stærra hlutverk en þú sinnir í dag.

Endir er á bið sem hefur einkennt umhverfi þitt og líðan þína nýverið. Útkoman uppfyllir óskir þínar og þrár. Málin taka stökkbreytingum á skömmum tíma.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Ammi Biggilli

Já rétt er það, ég átti afmæli í gær. Takk fyrir kveðjurnar :) Ég fékk afmælissöng bæði frá Debrecen í Ungverjalandi og New York í Bandaríkjunum. Takk stelpur mínar. Venjulega hef ég alltaf fengið pakka um leið og ég vakna á afmælisdaginn minn...en gærdagurinn var öðruvísi...ég fékk engan pakka til að opna með stírurnar í augunum. En ég var búin að fá pakka frá Unni systir og fékk leyfi til að opna hann...því ég gat nú ekki beðið í næstum viku með það!!! Biggi bakaði handa mér súkkulaðiköku í gær og ég mátti velja hvar við borðuðum, Búllan varð fyrir valinu. Svo mátti ég líka velja mynd til að horfa á og ég valdi Flightplan, ágætis vella, sá eiginlega strax í gegnum plottið en allt í lagi með það.

Hrönn og Haukur kíktu til okkar í gær og þau komu með gjöfina frá þeim og Strúnu brúnu. Ég fékk gjafakort í Kringluna...ekki amalegt það. Mamma og pabbi ætla að koma í kaffi í kvöld og ég fæ víst flatan pakka frá þeim...hmmmm...flatskjár?? Hehe...ekki líklegt

Við Biggi ætlum kannski að reyna að kíkja eitthvað í búðir og finna eitthvað til mín frá honum :D

Annars var þetta mjög góð og löng helgi...alltaf gott að fá einn aukadag, algjör lúxus. Við fórum á laugardaginn upp í Borgarfjörð til að hjálpa mömmu og pabba eitthvað með bústaðinn. Það var bara þvílík samkoma og ekki neitt unnið á laugardeginum, en það var grillað dýrindis kjet og kartöflur. Auk okkar voru þarna, Bensi og Drífa, Óli og Maggý og Bjarni og Jóhanna, s.s. tveir bræður pabba og konur og bróðir mömmu og kona :) Við Biggi og Guðrún gistum svo í bústaðnum sem mor og far eru með á okurleigu og uppskar ég 8 bit á 2 cm radíus...helv!!! Við gerðum svo eins og við gátum á sunnudeginum upp í bústað, sópa, ryksuga, moka, bera og þurrka.

Ég, Biggi og Guðrún keyrðum svo heim á sunnudeginum og að sjálfsögðu varð umferðaslys í göngunum svo við þurftum að keyra Hvalfjörðinn og vorum þar af leiðandi ekki búin að sturta okkur þegar strákarnir komu í grill niðrí Haðaland, en það var allt í gúddí og enginn kvartaði undan vondri lykt af okkur ;)

fimmtudagur, júní 01, 2006

Fr. Yo-yo

Þetta er sko búinn að vera erilsamur dagur. Fjúff...þurfti bæði að kalla út smið og rafvirkja í dag og það er nú meira stuðið í því. Af hverju geta iðnaðarmenn ekki látið sjá sig á umsömdum tíma? Annar var alltof seinn en hinn of snemma. Það leið bara hálftími á milli þeirra, svo ég þurfti að keyra fram og til baka, og fram og til baka. Væri ekki dæmigert ef viðgerðarmaðurinn frá Vífilfell myndi hringja núna og ætla að gera við gossjálfsalann? Alla vega þá var brotin upp hurð á þessari herbergjaleigu sem ég sé um upp á Höfða, svo það þurfti að fá handyman til að laga það. Hann kom úr Keflavík og ætlaði aldrei að drulla sér á svæðið, kom bara 2 tímum eftir að hann átti að koma...en hann var nú svo indæll maðurinn að ég erfi það nú ekki. Í morgun var hringt í mig og sagt að þurrkarinn þarna uppfrá væri bilaður, svo ég hringdi í viðgerðarþjónustuna til að fá einhvern að líta á þetta, hann kom hálftíma fyrr en hann hafði ætlað sér, en hann var eldsnöggur að gera við svo honum er fyrirgefið. Og að lokum er eitthvað að gossjálfsalanum en ég fékk engin loforð um að hann yrði lagaður í dag, vona samt að hann komist í gang á morgun svo að við getum fengið smá pening upp í allar þessar viðgerðir ;)

Ég þurfti líka að skreppa í morgun, en það var nú ekki vegna vinnunar. Svo það er sko með sanni hægt að segja að ég sé Fr. Yo-yo. Dagurinn er alla vega fljótur að líða þegar maður er svona á þönum en það getur nú líka verið askoti pirrandi að þurfa að hendast út þegar maður er ný sestur niður og ætlar að grípa aðeins í vinnuna, en svona er að vera landlord. Sigrún, framkv.stj. Hanza-hópsins, var nú að tala um að þetta gengi nú ekki lengur og við þyrftum að selja þetta eins fljótt og auðið er. Ég vona það, því það þyrfti bara einhver sem er handlaginn að sjá um þetta og það er ég ekki. Verður að vera einhver sem getur bara stokkið til þegar þarf á því að halda, ég þarf alltaf að hringja út smið og það er vesen ef hann á heima í Keflavík, og ræstingarfólk....en anywho þá er þetta bara svona og svolítið ævintýri bara og ágæt reynsla alveg hreint. Það er bara svo týpískt eitthvað að allt gerist í einu...en er ekki sagt "allt er þegar þrennt er"?

Annars er ekkert að frétta...nákvæmlega ekkert!!

Og með þeim orðum...ble

þriðjudagur, maí 30, 2006

Djamm og djús og sveitaferð

Ýmislegt búið að drífa á daga mína að undaförnu. Fór á smá tjútt með saumaklúbbnum mínum á laugardaginn. Hittumst heima hjá Bibbu og Írisi og borðuðum saman þriggja rétta máltíð. Fengum salat með reyktum silung í forrétt. Rosa góðar kjúklingabringur í aðalrétt og svo var ég búin að útbúa heitt epladóterí sem ég bar fram með ís. Skelltum okkur svo niðrí bæ og eins og svo oft áður þegar við förum saman var ferðinni heitið á Oliver. Þar var ekkert nema útlendingar, amerískar stelpur að missa sig í stuttu pilsin...úfff...ég var nú í stuttu gallapilsi, en ég var líka í sokkabuxum svo mér yrði ekki kalt og svo ég yrði ekki hálf nakin!!

Sunnudagurinn var hinn rólegasti. Egill kom í heimsókn og náði okkur í rúminu...svo gott að lúlla lengi :) Við skelltum okkur öll saman í sunnudagsbíltúr og keyptum ís og svona. Buðum svo strákunum í kaffi og með því. Allir orðnir æstir í kaffið góða. Svo um kvöldið var húsfundur hjá okkur. Þar var girðingarmálið tekið upp og fellt, aðeins einn sem var með girðingunni, en það var ekki nóg svo girðingin verður ekki sett upp að okkar hálfu. Ekki veit ég hvernig kellingarnar í hinum endanum tóku þeim fréttum. Nú erum við sennilega lent í fyrsta sameignarstríðinu okkar...úfff.

Í gær skelltum við okkur eftir vinnu upp í Húsafell. Fórum að sækja Guðrúnu systir. Hún var að fara með litla bílinn til mömmu og pabba því þau þurfa að vera á tveimur bílum í öllum þessum útréttingum varðandi bústaðinn. Allt liðið var að borða í Húsafelli. Mamma, pabbi, Guðrún, Litháarnir tveir og tveir smiðir úr Keflavík. Við keyrðum svo í bústaðinn sem þau gista í og svo fór pabbi með okkur upp í land og við "fórum inn í" bústaðinn. Sem er í rauninni bara steypuklumpur eins og er...en kannski ekki í þessum töluðu orðum þar sem átti að byrja að reisa húsið í dag held ég. Við fengum alla vega góðan bíltúr úr þessu og það er gaman að sjá svona grunnstig bústaðsins.

miðvikudagur, maí 24, 2006

Ekki mjög víðförul

Ég hef heimsótt 13 lönd, eða 5% af heimnum :) Reyndar hef ég ekki verið í öllum Bandaríkjunum þannig að það er kannski ekki að marka þetta 100%create your own visited countries map
or vertaling Duits Nederlands

Ég hef heimsótt 3 fylki í Bandaríkjunum og það er 5% af USA. Þetta eru bæ thö vei: California, Nevada og New Yorkcreate your own visited states map
or check out these Google Hacks.

Annars fór ég og hitti Hönnu Báru vinkonu mína á Café Paris í gær eftir vinnu. Fengum okkur að borða og smá kaffidreitil. Röltum svo í skítakuldanum upp í Skífu og kíktum svona á hvað var í boði. Ég fann mér 2 diska í 2 fyrir 2000 rekkanum. Keypti mér U2 - How To Dismantle An Atomic Bomb og Best of disk með AHA. Það er mjög langt síðan ég keypti mér geisladiska síðast. Þetta er yfirleitt Bigga deild, og ég hlusta bara á það sem hann kaupir sér. En mig vantaði einhverja góða diska til að hlusta á í bílnum.

Svo er bara frí á morgun, Uppstigningardagur, það þýðir líka að hún Íris mín er að koma. Jibbí, hlakka svo til að sjá litlu fjölskylduna.

adju

þriðjudagur, maí 23, 2006

Undirbúningurinn

Það er kannski sniðugt að leyfa ykkur að fylgjast með brúðkaupsundirbúningi hjá okkur. Það eina sem er búið að finna og panta er sniðið af kjólnum, og ég vona að ég fari nú að fá það í hendurnar fljótlega. Við mamma ætlum að reyna að sauma í sameiningu, ætlum að gera einn tilraunakjól fyrst...líka svona til að athuga hvort sniðið passi mér nógu vel og svona.

Presturinn sem ég vildi að gæfi okkur saman kemst ekki til Reykjavíkur þessa helgi, svekkjandi. Það er akkúrat 50 ára afmælishátíð kirkjunnar á Hvammstanga og það er svona skemmtilegra ef presturinn er á svæðinu...ehaggi? Þannig að nú erum við að spá í prestinn í Árbæjarkirkju (Þór heitir hann), Pálma Matt, eða bara annanhvorn prestinn í kirkjunni sem við munum gifta okkur í.

Þá erum við komin að kirkjunni. Við erum búin að skoða Hjallakirkju, en ég fékk það á tilfinninguna að Biggi væri ekkert úber heillaður, honum fannst áklæðið á stólunum ekki nógu fallegt. Ekki alveg það sem ég var að skoða, en báðir aðilar þurfa að sjálfsögðu að vera mjög sátt með kirkjuna. Mér fannst Hjallakirkja alveg tilvalin, hún er ekki löng þannig að allir gestir sitja rosalega nálægt...sem mér finnst rosalega góður kostur.

Við erum ekki búin að ákveða hvernig veislu við viljum hafa. Þetta er svo rosalega dýr pakki að það er eins gott að vera alveg 100% ánægður. Við vorum einmitt að tala um hvernig veislan ætti að vera í gærkvöldi og gátum ekki komist að niðurstöðu að svo stöddu, ræddum þetta fram og aftur langt fram eftir og þess vegna er ég mikið sybbin núna...geisp

Þannig er nú það og það er að miklu að huga, en það er líka svo gott að hugsa til þessa að það er ár í þetta svo maður hefur nægan tíma til að hugsa. Markmiðið er að vera búin að panta kirkju, prest og sal fyrir lok júní.

I will keep you posted!!

mánudagur, maí 22, 2006

Kemur þetta ykkur á óvart?

Seinast þegar ég tók svona Sex and the city próf var ég líkust Miröndu...maður breytist greinilega með aldrinum...

You Are Most Like Charlotte!
You are the ultimate romantic idealistYou've been hurt before, but that hasn't caused you to give up on love.If anything, your resolve to fall in love is stronger than ever.And it's this feminine optimism that men find most appealing about you.
Romantic prediction: That guy you are seeing (or crushing on)?
Could be very serious - if you play your cards right!

föstudagur, maí 12, 2006

Clean the garden day

Jæja ladys and germs, þá er bara komin helgi eina ferðina enn. Þessi vika var bæði fljót og lengi að líða. Fyrri hlutinn var lengi að líða en svo kom bara fimmtudagur og svo var bara strax kominn föstudagur. Ef ég þekki það rétt þá verður kominn mánudagur bara strax á morgun. Uss þessar helgar eru alltof fljótar að líða og týpískt að það verði síðan bara rigning og skítakuldi, er það ekki alltaf svoleiðis. Maður situr inni alla sólardagana fastur við skrifborðið og kemur svo frá sumrinu næpuhvítur.

Ég fæ nú að vera úti eftir vinnu, það er garðhreinsun í Hlíðarhjalla 57-61 og svo grill á eftir. Ég veit ekki ennþá hvort maður þarf að koma með sitt eigið kjet, vona ekki því ég á ekkert á grillið nema frosnar kjúklingabringur og ekki gengur nú að reyna að grilla það.

Við Biggi ætluðum að byrja vikuna á DDV-kúrnum, eða svona styðja okkur við hann. En við erum hreinlega of löt til að borða hollt. Reyndar erum við búin að vera frekar dugleg að elda þessa vikuna en ekkert sérstaklega hollt samt. Í gær var ég með kjúklingarétt, en sósan var reyndar rjómakjúklingasúpa frá Campell's. Í fyrradag vorum við með kjötbollur í brúnnisósu og kartöflumús með (kannski ekkert svo óhollt ef Biggi hefði ekki endilega vilja hafa beikon í þeim, hef aldrei fengið beikonkjötbollur áður, en hann er alveg viss um að þannig séu ekta frikadellur, veit ekki hvaðan hann hefur þær upplýsingar!!!) Vá langur svigi. Á miðvikudaginn vorum við með grjónagraut og brauð, alls ekki skv. DDV!! Og einhvern daginn fórum við á Hamborgarabúlluna, sem er reyndar orðinn uppáhaldsstaðurinn okkar núna og hefur verið í þó nokkurn tíma reyndar. Ég fæ mér reyndar alltaf bara barnaborgara og það er ekki svona feit majónessósa á honum, bara tómatsósa en franskarnar eru náttúrulega bara fita í gegn. Reyndar er þetta svona passlega mikið af frönskum...ekki heilt fjall eins og á American Style. En franskar eru alltaf franskar!!! Ummmm....franskar...hihi.

Nú styttist í að Óli og Mikael koma heim í smá frí, svo kemur Íris tæpri viku seinna og verður bara í einhverjar 2 vikur...búhú...ekki nærri nógu langur tími!!! En þau ætla að flytja heim í byrjun næsta árs, Írisi finnst 7 ár vera orðið alveg nógu langur tími og ég er hjartanlega sammála. Svo eru Unnur og Danni víst eitthvað að spá í að flytja heim þegar Unnur er búin með skólann og hún á bara eitt ár eftir. Þá verður kannski bara Kristrún mín eini útlendingurinn minn. Ég hlakka nú til þegar ég fer að heimsækja hana, held að Ungverjaland sé nú svolítið mikið öðruvísi en önnur lönd sem ég hef heimsótt, ef ég tel Marrokko ekki með. En það verður ekki alveg strax...kannski bara á þriðja árinu hennar.

Jæja ég er að spá í að fara að koma mér út í þetta blíðskapar veður.

Adju

fimmtudagur, maí 04, 2006

21. júlí 2007

Hvernig lýst ykkur á þessa dagsetningu? Þetta verður væntanlegur brúðkaupsdagur okkar :) Þá er bara að finna prest og kirkju sem fyrst. Alla vega heyri ég það á Ingu vinkonu að ég verði að vera mjög tímanlega í þessu þar sem sumarið er náttúrulega vinsælasti tíminn til að gifta sig. Látið mig endilega vita elsku útlendingarnir mínir hvort þið mynduð ekki alveg örugglega komast þennan dag í svaka brúðkaup ;)

Bara smá í þetta sinn

föstudagur, apríl 28, 2006

Þetta líkar mér

Já það er ekki verra þegar sólin skín svona fínt. Alveg hreint æðislegt veður og ég er í grænu sumarpilsi þannig þetta gæti ekki verið betra. Spurning um að grilla sér eitthvað úti á svölum, athuga svona hvort litla ferðagrillið okkar virki ekki örugglega ennþá. Svo er bara löng helgi framundan og maður heldur í vonina að veðrið haldist svona, það væri frábært!! Hugsa að ég reyni að þrífa bílinn um helgina því ég var að keyra Ártúnsbrekkuna um daginn og þá kemur þessi risatrukkur fram úr mér og við skulum bara segja það að bíllinn minn hætti að vera hvítur. Ojj...drullan og viðbjóðurinn sem hann jós yfir mig, ég hreinlega skil ekki hvaðan það kom.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Jimundur minn

Það er búið að vera frekar rólegt hjá mér í dag, ef við miðum alla vega við gærdaginn. Mér leið eins og símahóru í gær, síminn gjörsamlega stoppaði ekki allan daginn. Ég er sybbin og held að ég fari barasta beint heim eftir vinnu...sem er eftir 15 mínútur. Kannski kem ég við í Bónus og kaupi mér vax og reyni að koma mér út úr því að vera fröken loðmundur á fótunum...hehe...sexý ;) Kannski ég taki bara smá bjútí trítment í leiðinni og plokki og liti á mér augabrúnirnar. Já ég held ég geri það bara og horfi svo á Friends, því ég var að fá seríurnar sem ég pantaði um daginn. Jeij!!! Mamma hennar Írisar var að koma frá NY og hún kippti þeim með sér. Ég sagði henni og Bibbu systur hennar Írisar fréttirnar og ég var alveg knúsuð í bak og fyrir. Bibba fékk meira að segja gæsahúð, þær eru svo miklar dúllur :)

Við Biggi fengum frítt í bíó í gær. Vinkona ömmu hans vann miða á Bylgjunni og bauð ömmu hans tvo miða, amma hans bauð svo tengdó miðana sem bauð okkur miðana...hehehe. Við vissum ekkert á hvaða mynd við vorum að fara en þetta var myndin Prime, grínmynd og alveg ágæt. Bara týpísk amerísk konum mynd en alveg hægt að skellihlægja að henni á köflum. Við vorum svo rómó að við fórum út að borða fyrir bíóið...eða á Subway...vúhú...rosa rómó!!

Ég elska á vorin fyrstu dagana sem maður skýst út á peysunni, eins og í gær. Og þar sem ég held að sumarið sé nú alveg að koma þá skellti ég mér í það að láta setja sumardekkin undir bílinn og núna heyrast engin læti þegar ég skutlast um götur borgarinnar á túttubílnum sæta.

Jæja nóg í bili

adju

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Svo ég haldi nú aðeins áfram...

...með ferðasöguna. Á föstudeginum vorum við bara í rólegheitum í Kolding, fórum í labbitúr og skoðuðum okkur um. Á laugardeginum héldum við svo til Vejle og fengum að skoða skrifstofuna hans Danna. Við héldum að allar búðir yrðu opnar til kl. 16 en kl. 14 lokaði allt og okkur var næstum hent út úr búðinni Bahne, við vorum reyndar að versla þar fyrir alveg slatta pening svo við fengu jú að borga. Á heimleiðinni komum við við í Elgiganten í Kolding og Biggi keypti sér Playstation2 og Buzz. Við röltum aðeins yfir í Storcenter sem var hinum megin við götuna og keyptum okkur gotterí með kaffinu. Svo var bara farið heim að hygge sig og keppt all svakalega í Buzz.
Á páskadag nutum við þessa að horfa á sjónvarp, vera í Buzz og borða páskaegg. Við röltum svo niður í Koldinghús til að viðra okkur. Koldinghús er gamall kastali sem búið er að gera aðeins upp og laga, því hann brann á sínum tíma og það var skotið á hann því landamæri Danmerkur og Þýskalands voru áður á þessum slóðum.
Á mánudag fórum við til Ribe, sem er elsti bær í Danmörku. Húsin þar voru öll gömul og voða krúttleg. Það var að vísu svolítið kalt en við lifðum það nú af. Þriðjudagurinn var shop till you drop og var ferðinni heitið til Århus. Við fórum meira að segja í Ikea, því Unni og Danna vantaði hitt og þetta. Vá ég hef aldrei séð eins stóra Ikea búð og fannst ekkert smá gaman í henni :) Margt sem ég hefði viljað kaupa ;) Miðvikudagur var brottfaradagur til Köben :( og það var nú ekki gaman að kveðja skutuhjúin. Biggi og Unnur keyrðu mig á lestarstöðina með farangurinn og svo fóru þau að skila bílnum á bílaleiguna. Við vorum svo snemma í því að við þurftum að bíða í góðan klukkutíma. Við notuðum tímann bara til að spjalla og fá okkur kaffi og kakó. Við Biggi vorum svo komin til Köben um eittleytið og var ferðinni haldið beint upp á hótel með farangurinn. Þegar við komum svo í herbergið okkar brá okkur heldur í brún. Haldiði að við höfum ekki pantað okkur no facility herbergi, s.s. ekkert baðherbergi inn af!!!! Nú voru góð ráð dýr því þeir sem þekkja mig vita að ég get helst ekki af sálfræðilegum ástæðum gert númer 2 annars staðar en heima hjá mér, hvað þá á sameiginlegu hótel klósetti!!! Við fórum niður og reyndum að skipta en eina sem var laust var fínasta herbergið þeirra og það hefði kostað okkur 800 kr. danskar og við hefðum þurft að flytja aftur í no facility herbergi síðustu nóttina. Mín ákvað bara að bíta á jaxlinn og þetta var svo bara ekkert mál. Reyndar vesen að þurfa alltaf að fara með fullt af drasli í sturtuna sem var hinum megin á hæðinni.
Anyways...við fórum svo í Tivolíið, höfðum fengið gefins hjá IcelandExpress aðgangsmiða. Biggi keypti sér svo dagspassa í ÖLL tækin og fór í þessi 2 stóru tæki sem voru opin...hehe. Við röltum svo upp Strikið í rólegheitum og löbbuðum Nyhavn og kíktum í Magasin Du Nord. Tókum svo Metro frá Konges Nytorv til Islands Brygge, en þar býr Dagný og hún hafði boðið okkur í mat. Við sátum svo hjá þeim og dreyptum á hvítvíni, rauðvíni og fleiru langt fram eftir kvöldi.
Fimmtudagurinn var viðburðaríkur dagur. Við tókum daginn snemma og fórum og skoðuðum Rosenborg höllina, Sívalningsturninn, fórum í siglingu frá Nyhavn og kíktum aðeins í búðir og svona. Svo um kvöldið áttum við pantað borð á Peder Oxe. Fengum fínan mat, reyndar var svolítið mikið af fólki og svaldur og læti, og þjónustustúlkurnar voru næstum búnar að kveikja í pleisinu. Þær réðu ekki alveg við arineldinn, en það reddaðist að lokum þegar maður var kominn með vott af reykeitrun. Svo þegar við vorum komin út af veitingastaðnum og vorum að rölta hægt yfir torgið sem er fyrir utan, haldiði að minn maður hafi ekki bara farið á skeljarnar...híhí...og ég sagði að sjálfsögðu jáhá :) Svo nú er bara brúðkaup næsta sumar, kominn tími til ;)
Á föstudeginum fórum við á sædýrasafn og svo í Fisketorvet (mollið) fengum okkur að borða þar og skelltum okkur svo í bíó á Ice Age 2. Röltum svo um og ég gerði heiðarlega lokatilraun til að finna mér skó. Fórum svo um kvöldið til Dagnýjar, tókum taxa að þessu sinni því það var hellidemba og við höfðum labbað úr mollinu á hótel og orðið niðurrignd, pöntuðum okkur pizzu og Biggi fékk klippingu.
Tókum svo lestina á laugardag út á Kastrup og hittum akkúrat Emblu vinkonu Unnar og Eika kærastan hennar á lestarstöðinni. Fluginu seinkaði um klukkutíma vegna ísingar á vélinni í Keflavík en við komumst á leiðarenda að lokum og mamma og Guðrún komu að sækja okkur.

Þetta er nú meiri langlokan en þetta var alveg ógleymanlegt og ekki var nú leiðinlegt að fá bónorð á sumardaginn fyrsta :)

mánudagur, apríl 17, 2006

Det er så dejligt!

Já lömbin mín, lífið í Danmörku er sko ljúft. Við erum alveg á tíu stjörnu hóteli hérna á Immanuelsvej í Kolding. Hótelstjórarnir eru sko yndislegir (Unnur og Danni sko ;)). Við lentum á miðvikudaginn rétt eftir hádegi og þurftum að bíða leeeeennnnnngggggiiiii eftir annarri töskunni okkar. Við keyrðum svo beint niðrá Langelinje og fórum á útsölumarkaðinn þar. Ég fann mér einar Levi's buxur og gráa hettupeysu, sem er strax orðin uppáhaldspeysan mín. Svo keyrðum við til Lynby og heilsuðum upp á Áslaugu frænku okkar. Við vorum svo komin hérna til Kolding um kvöldið. Á fimmtudaginn keyrðum við yfir til Þýskalands, á leiðinni sýndi Danni okkur bygginguna sem hann hefur verið að vinna við að teikna rafmagn og dóterí. Vahá hvað þetta var stórt og hús og verður rosalega flott þegar það verður tilbúið. Í Flensburg í Þýskalandi röltum við aðeins um og settumst svo niður og fengum okkur gott að borða. Okkur tókst líka að finna Eis Cafe og við Unnur og Biggi fengum okkur Spaghetti-eis...ó the memories síðan '94 þegar við vorum heilt sumar í suður-Þýskalandi. Við fórum svo og keyptum fullt af bjór og fullt af gosi :) Svo var ferðinni haldið heim á leið.

Jæja ég ætla að setjast fram til hinna og fá mér morgunmat. Skrifa restina seinna.

Hej hej

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Denmark á morgun!!!

Já nú er loksins komið að því. Við förum í flug kl. 7:30 í fyrramálið og lendum á dönskum tíma eitthvað rúmlega 12. Ég hlakka svo mikið til að hitta hana systir mína að orð fá því bara ekki líst!! Reyndar á að rigna einhver ósköp á okkur og það verður víst ekkert rosalega hlýtt, en hvað vita þessir veðurfræðingar svosem?

Alltaf lætur maður nú plata sig, er að fara að borða KFC núna í hádeginu. Jebb það voru allir hérna á skrifstofunni að spilla mér og ég varð að sjálfsögðu að láta undan, ég meina maður er nú að fara í frí. Bara flott að vera feitur og fínn í fríinu. Ekki eins og ég sé búin að vera að borða rosa hollan mat að undanförnu.

En ég fékk ekki góðar fréttir í morgun, frænka mín hún Adda lést í morgun. Adda var systir ömmu Jórunnar. Hún var búin að vera svolítið mikið veik að undanförnu í kjölfar aðgerðar sem hún fór í. Við verðum sennilega ennþá úti þegar hún verður jörðuð svo ég segi bara núna: hvíl þú í friði frænka mín.

Á fimmtudaginn fór ég í jarðaför hjá annarri gamalli frænku. Systir hans Ásgeirs afa, en hún var alltaf kölluð Sigga sú á mínu heimili og á Guðrún systir heiðurinn af þeirri nafngift. Það var þannig að mamma var eitthvað að tala um Siggu frænku og Guðrún spyr hvaða Sigga það sé og þá segir mamma að það sé systir hans pabba sem prjónar vettlingana. Þá segir Guðrún: já Sigga sú, og þar með var hún alltaf kölluð Sigga sú hjá okkur. En þetta er nú bara gangur lífsins og ekkert óeðlilegt þegar fólk er orðið svona fullorðið, en það er nú samt alltaf leiðinlegt að horfa á eftir fólki sem manni þótti vænt um.

föstudagur, apríl 07, 2006

4 dagar til Denmark

Ég fer að verða ein eftir hérna á skrifstofunni í dag. Það er föstudagur og klukkan er tuttugu mínútur yfir þrjú. Mig langar ekki að verða síðust því þá þarf ég að loka og læsa og setja öryggiskerfið á...sem ég hef aldrei gert...hehe en ég á að hafa einhvers staðar leyninúmerið...vona ég alla vega.

Horfðum á King Kong í gær og ég var svo spennt að þegar ég ætlaði að standa upp til að fara inn að sofa þá gat ég varla hreyft á mér hálsinn. Var reyndar orðin mjög stíf í honum fyrr, fór í heitt bað fyrr um kvöldið til að reyna að losa um. En það virkaði ekki. Vaknaði svo í morgun og var bara nokkuð góð en svo um leið og ég fór að vinna eitthvað þá byrjaði hálsinn að stífna upp aftur. Þetta er hægra megin og ég held að þetta sé út af tölvumúsinni.

Jæja það styttist heldur betur í útlandaferð í Unnar og Danna kot. Bara helgin og svo tveir vinnudagar. Jeij!! Held að það sé alveg nauðsyn að reyna að fara amk einu sinni á ári til útlanda, það er svo refreching eitthvað að breyta aðeins um umhverfi. Við ætlum að vera í viku hjá Unni og Danna og vera svo í þrjá og hálfan dag í Köben. Pöntuðum okkur hótel nálægt aðallestarstöðinni og tívolíinu. Reyndar var þetta víst einu sinni hverfið þar sem hórurnar voru, en á ekki að vera þannig núna, en það er nú allt í lagi bara því þegar mann vantar gjaldeyri getur maður bara stokkið út á næsta horn...hahaha...ég er svo fyndin. Biggi er búinn að panta borð á uppáhalds staðnum sínum Peder Öxe...það er pottþétt ekki skrifað svona!! Ég hlakka til að borða þar því hann er sko oft búinn að segja mér hvað þetta er æðislegur staður, vona að hann mæti væntingum.

Jahhh...svei mér þá ef ég er ekki bara orðin ein eftir...núna er klukkan sko orðin hálf...common people hvernig væri að vinna á föstudögum líka...hehehe

Jæja ætla að láta þetta nægja í bili

þriðjudagur, apríl 04, 2006

7 dagar til Denmark

En hvað er málið með veðrið??? Það var snjór í morgun og núna er bara hellidemba. Rosalega grámyglulegt úti.

En já það styttist í utanlandsferð...jibbí jei. Ég vona að við fáum æðislegt veður því við verðum með bílaleigubíl og ætlum að keyra eitthvað í kringum Kolding og skoða okkur um. Ég hlakka svo til að koma til hennar Unnar minnar. Hef ekki heimsótt hana síðan í desember 2002 og hún er búin að flytja 2 sinnum síðan. Komin tími til að kíkja á hana.

Jæja kominn tími til að fara og snýta mér.

mánudagur, apríl 03, 2006

8 dagar til Denmark

Sorrý people...ég hef ekki verið í stuði til að blogga að undanförnu...sumir vita af hverju og aðrir ekki. Ætla ekki að fara nánar út í það hérna.

Vorið er greinilega á leiðinni...því ég er komin með kvef. Fæ voða oft kvef á vorin og sumrin. Nebbinn á mér er orðinn stór og rauður og aumur. Í gær hélt ég að ég hefði snýtt öllum vökva úr líkamanum mínum. Var alveg orðin þurr í augunum og var rosalega þyrst og drakk og drakk vatn. Hressandi!!

Jæja bara smá svona...láta vita að ég er hérna enn.

föstudagur, mars 24, 2006

Niðurtalningin heldur áfram

19 dagar til Danmerkurferðar okkar Bigga

Lúxus pía

Í gær var óvissuferð í vinnunni. Flottasta óvissuferð sem ég hef nokkurn tíma farið í. Hanza-Hópurinn var s.s. að bjóða starfsfólki Húsakaupa í ferð. Við byrjuðum á að mæta hingað í vinnuna kl. 18 í betri fötunum. Það var skálað í kampavíni og svo var tilkynnt að samkomulag hefði náðst um að Hanza-Hópurinn myndi kaupa fasteignasöluna. Smá svona ræðuhöld og myndataka af öllum hópnum. Það vantaði bara tvíburana, Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni. Svo var haldið út í leigubíla og við keyrð á Hótel Sögu þar sem beið okkar 5 rétta málsverður. Nammi namm...geggjað gott allt saman, nema ég var ekkert rosalega hrifin af Sandkverfunni (fiskur) af því að það var roðið á og erfitt að ná því af. Ég var svo komin heim um kl. 23.30 og var þá svo södd að ég ætlaði ekki að geta sofnað. Svo breyttist seddan í magaverk...þannig að ég svaf ekkert alltof vel í nótt og núna er ég mjög sybbin og væri alveg til í að vera heima í rúminu mínu. Já svo þurfti ég að sjálfsögðu að vakna ekstra snemma í morgun þar sem ég átti að sjá um morgunkaffið...geisp!!!

fimmtudagur, mars 23, 2006

Nýtt nýtt nýtt

Þá langaði mig að breyta aðeins til. Eða það að ég er svona fylgin henni Kristrúnu minni og elti hana hvert sem er...áður en þið vitið verð ég flutt til Ungverjalands. Ég var að spá í að endurvekja gamla bloggið mitt hér hjá blogger, en það var bara orðið svo rosalega stórt að það hefið alltaf tekið heila eilífð að pósta blogg.

Jæja hef þetta ekki lengur í bili...en velkomin!!!