föstudagur, apríl 28, 2006

Þetta líkar mér

Já það er ekki verra þegar sólin skín svona fínt. Alveg hreint æðislegt veður og ég er í grænu sumarpilsi þannig þetta gæti ekki verið betra. Spurning um að grilla sér eitthvað úti á svölum, athuga svona hvort litla ferðagrillið okkar virki ekki örugglega ennþá. Svo er bara löng helgi framundan og maður heldur í vonina að veðrið haldist svona, það væri frábært!! Hugsa að ég reyni að þrífa bílinn um helgina því ég var að keyra Ártúnsbrekkuna um daginn og þá kemur þessi risatrukkur fram úr mér og við skulum bara segja það að bíllinn minn hætti að vera hvítur. Ojj...drullan og viðbjóðurinn sem hann jós yfir mig, ég hreinlega skil ekki hvaðan það kom.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Jimundur minn

Það er búið að vera frekar rólegt hjá mér í dag, ef við miðum alla vega við gærdaginn. Mér leið eins og símahóru í gær, síminn gjörsamlega stoppaði ekki allan daginn. Ég er sybbin og held að ég fari barasta beint heim eftir vinnu...sem er eftir 15 mínútur. Kannski kem ég við í Bónus og kaupi mér vax og reyni að koma mér út úr því að vera fröken loðmundur á fótunum...hehe...sexý ;) Kannski ég taki bara smá bjútí trítment í leiðinni og plokki og liti á mér augabrúnirnar. Já ég held ég geri það bara og horfi svo á Friends, því ég var að fá seríurnar sem ég pantaði um daginn. Jeij!!! Mamma hennar Írisar var að koma frá NY og hún kippti þeim með sér. Ég sagði henni og Bibbu systur hennar Írisar fréttirnar og ég var alveg knúsuð í bak og fyrir. Bibba fékk meira að segja gæsahúð, þær eru svo miklar dúllur :)

Við Biggi fengum frítt í bíó í gær. Vinkona ömmu hans vann miða á Bylgjunni og bauð ömmu hans tvo miða, amma hans bauð svo tengdó miðana sem bauð okkur miðana...hehehe. Við vissum ekkert á hvaða mynd við vorum að fara en þetta var myndin Prime, grínmynd og alveg ágæt. Bara týpísk amerísk konum mynd en alveg hægt að skellihlægja að henni á köflum. Við vorum svo rómó að við fórum út að borða fyrir bíóið...eða á Subway...vúhú...rosa rómó!!

Ég elska á vorin fyrstu dagana sem maður skýst út á peysunni, eins og í gær. Og þar sem ég held að sumarið sé nú alveg að koma þá skellti ég mér í það að láta setja sumardekkin undir bílinn og núna heyrast engin læti þegar ég skutlast um götur borgarinnar á túttubílnum sæta.

Jæja nóg í bili

adju

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Svo ég haldi nú aðeins áfram...

...með ferðasöguna. Á föstudeginum vorum við bara í rólegheitum í Kolding, fórum í labbitúr og skoðuðum okkur um. Á laugardeginum héldum við svo til Vejle og fengum að skoða skrifstofuna hans Danna. Við héldum að allar búðir yrðu opnar til kl. 16 en kl. 14 lokaði allt og okkur var næstum hent út úr búðinni Bahne, við vorum reyndar að versla þar fyrir alveg slatta pening svo við fengu jú að borga. Á heimleiðinni komum við við í Elgiganten í Kolding og Biggi keypti sér Playstation2 og Buzz. Við röltum aðeins yfir í Storcenter sem var hinum megin við götuna og keyptum okkur gotterí með kaffinu. Svo var bara farið heim að hygge sig og keppt all svakalega í Buzz.
Á páskadag nutum við þessa að horfa á sjónvarp, vera í Buzz og borða páskaegg. Við röltum svo niður í Koldinghús til að viðra okkur. Koldinghús er gamall kastali sem búið er að gera aðeins upp og laga, því hann brann á sínum tíma og það var skotið á hann því landamæri Danmerkur og Þýskalands voru áður á þessum slóðum.
Á mánudag fórum við til Ribe, sem er elsti bær í Danmörku. Húsin þar voru öll gömul og voða krúttleg. Það var að vísu svolítið kalt en við lifðum það nú af. Þriðjudagurinn var shop till you drop og var ferðinni heitið til Århus. Við fórum meira að segja í Ikea, því Unni og Danna vantaði hitt og þetta. Vá ég hef aldrei séð eins stóra Ikea búð og fannst ekkert smá gaman í henni :) Margt sem ég hefði viljað kaupa ;) Miðvikudagur var brottfaradagur til Köben :( og það var nú ekki gaman að kveðja skutuhjúin. Biggi og Unnur keyrðu mig á lestarstöðina með farangurinn og svo fóru þau að skila bílnum á bílaleiguna. Við vorum svo snemma í því að við þurftum að bíða í góðan klukkutíma. Við notuðum tímann bara til að spjalla og fá okkur kaffi og kakó. Við Biggi vorum svo komin til Köben um eittleytið og var ferðinni haldið beint upp á hótel með farangurinn. Þegar við komum svo í herbergið okkar brá okkur heldur í brún. Haldiði að við höfum ekki pantað okkur no facility herbergi, s.s. ekkert baðherbergi inn af!!!! Nú voru góð ráð dýr því þeir sem þekkja mig vita að ég get helst ekki af sálfræðilegum ástæðum gert númer 2 annars staðar en heima hjá mér, hvað þá á sameiginlegu hótel klósetti!!! Við fórum niður og reyndum að skipta en eina sem var laust var fínasta herbergið þeirra og það hefði kostað okkur 800 kr. danskar og við hefðum þurft að flytja aftur í no facility herbergi síðustu nóttina. Mín ákvað bara að bíta á jaxlinn og þetta var svo bara ekkert mál. Reyndar vesen að þurfa alltaf að fara með fullt af drasli í sturtuna sem var hinum megin á hæðinni.
Anyways...við fórum svo í Tivolíið, höfðum fengið gefins hjá IcelandExpress aðgangsmiða. Biggi keypti sér svo dagspassa í ÖLL tækin og fór í þessi 2 stóru tæki sem voru opin...hehe. Við röltum svo upp Strikið í rólegheitum og löbbuðum Nyhavn og kíktum í Magasin Du Nord. Tókum svo Metro frá Konges Nytorv til Islands Brygge, en þar býr Dagný og hún hafði boðið okkur í mat. Við sátum svo hjá þeim og dreyptum á hvítvíni, rauðvíni og fleiru langt fram eftir kvöldi.
Fimmtudagurinn var viðburðaríkur dagur. Við tókum daginn snemma og fórum og skoðuðum Rosenborg höllina, Sívalningsturninn, fórum í siglingu frá Nyhavn og kíktum aðeins í búðir og svona. Svo um kvöldið áttum við pantað borð á Peder Oxe. Fengum fínan mat, reyndar var svolítið mikið af fólki og svaldur og læti, og þjónustustúlkurnar voru næstum búnar að kveikja í pleisinu. Þær réðu ekki alveg við arineldinn, en það reddaðist að lokum þegar maður var kominn með vott af reykeitrun. Svo þegar við vorum komin út af veitingastaðnum og vorum að rölta hægt yfir torgið sem er fyrir utan, haldiði að minn maður hafi ekki bara farið á skeljarnar...híhí...og ég sagði að sjálfsögðu jáhá :) Svo nú er bara brúðkaup næsta sumar, kominn tími til ;)
Á föstudeginum fórum við á sædýrasafn og svo í Fisketorvet (mollið) fengum okkur að borða þar og skelltum okkur svo í bíó á Ice Age 2. Röltum svo um og ég gerði heiðarlega lokatilraun til að finna mér skó. Fórum svo um kvöldið til Dagnýjar, tókum taxa að þessu sinni því það var hellidemba og við höfðum labbað úr mollinu á hótel og orðið niðurrignd, pöntuðum okkur pizzu og Biggi fékk klippingu.
Tókum svo lestina á laugardag út á Kastrup og hittum akkúrat Emblu vinkonu Unnar og Eika kærastan hennar á lestarstöðinni. Fluginu seinkaði um klukkutíma vegna ísingar á vélinni í Keflavík en við komumst á leiðarenda að lokum og mamma og Guðrún komu að sækja okkur.

Þetta er nú meiri langlokan en þetta var alveg ógleymanlegt og ekki var nú leiðinlegt að fá bónorð á sumardaginn fyrsta :)

mánudagur, apríl 17, 2006

Det er så dejligt!

Já lömbin mín, lífið í Danmörku er sko ljúft. Við erum alveg á tíu stjörnu hóteli hérna á Immanuelsvej í Kolding. Hótelstjórarnir eru sko yndislegir (Unnur og Danni sko ;)). Við lentum á miðvikudaginn rétt eftir hádegi og þurftum að bíða leeeeennnnnngggggiiiii eftir annarri töskunni okkar. Við keyrðum svo beint niðrá Langelinje og fórum á útsölumarkaðinn þar. Ég fann mér einar Levi's buxur og gráa hettupeysu, sem er strax orðin uppáhaldspeysan mín. Svo keyrðum við til Lynby og heilsuðum upp á Áslaugu frænku okkar. Við vorum svo komin hérna til Kolding um kvöldið. Á fimmtudaginn keyrðum við yfir til Þýskalands, á leiðinni sýndi Danni okkur bygginguna sem hann hefur verið að vinna við að teikna rafmagn og dóterí. Vahá hvað þetta var stórt og hús og verður rosalega flott þegar það verður tilbúið. Í Flensburg í Þýskalandi röltum við aðeins um og settumst svo niður og fengum okkur gott að borða. Okkur tókst líka að finna Eis Cafe og við Unnur og Biggi fengum okkur Spaghetti-eis...ó the memories síðan '94 þegar við vorum heilt sumar í suður-Þýskalandi. Við fórum svo og keyptum fullt af bjór og fullt af gosi :) Svo var ferðinni haldið heim á leið.

Jæja ég ætla að setjast fram til hinna og fá mér morgunmat. Skrifa restina seinna.

Hej hej

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Denmark á morgun!!!

Já nú er loksins komið að því. Við förum í flug kl. 7:30 í fyrramálið og lendum á dönskum tíma eitthvað rúmlega 12. Ég hlakka svo mikið til að hitta hana systir mína að orð fá því bara ekki líst!! Reyndar á að rigna einhver ósköp á okkur og það verður víst ekkert rosalega hlýtt, en hvað vita þessir veðurfræðingar svosem?

Alltaf lætur maður nú plata sig, er að fara að borða KFC núna í hádeginu. Jebb það voru allir hérna á skrifstofunni að spilla mér og ég varð að sjálfsögðu að láta undan, ég meina maður er nú að fara í frí. Bara flott að vera feitur og fínn í fríinu. Ekki eins og ég sé búin að vera að borða rosa hollan mat að undanförnu.

En ég fékk ekki góðar fréttir í morgun, frænka mín hún Adda lést í morgun. Adda var systir ömmu Jórunnar. Hún var búin að vera svolítið mikið veik að undanförnu í kjölfar aðgerðar sem hún fór í. Við verðum sennilega ennþá úti þegar hún verður jörðuð svo ég segi bara núna: hvíl þú í friði frænka mín.

Á fimmtudaginn fór ég í jarðaför hjá annarri gamalli frænku. Systir hans Ásgeirs afa, en hún var alltaf kölluð Sigga sú á mínu heimili og á Guðrún systir heiðurinn af þeirri nafngift. Það var þannig að mamma var eitthvað að tala um Siggu frænku og Guðrún spyr hvaða Sigga það sé og þá segir mamma að það sé systir hans pabba sem prjónar vettlingana. Þá segir Guðrún: já Sigga sú, og þar með var hún alltaf kölluð Sigga sú hjá okkur. En þetta er nú bara gangur lífsins og ekkert óeðlilegt þegar fólk er orðið svona fullorðið, en það er nú samt alltaf leiðinlegt að horfa á eftir fólki sem manni þótti vænt um.

föstudagur, apríl 07, 2006

4 dagar til Denmark

Ég fer að verða ein eftir hérna á skrifstofunni í dag. Það er föstudagur og klukkan er tuttugu mínútur yfir þrjú. Mig langar ekki að verða síðust því þá þarf ég að loka og læsa og setja öryggiskerfið á...sem ég hef aldrei gert...hehe en ég á að hafa einhvers staðar leyninúmerið...vona ég alla vega.

Horfðum á King Kong í gær og ég var svo spennt að þegar ég ætlaði að standa upp til að fara inn að sofa þá gat ég varla hreyft á mér hálsinn. Var reyndar orðin mjög stíf í honum fyrr, fór í heitt bað fyrr um kvöldið til að reyna að losa um. En það virkaði ekki. Vaknaði svo í morgun og var bara nokkuð góð en svo um leið og ég fór að vinna eitthvað þá byrjaði hálsinn að stífna upp aftur. Þetta er hægra megin og ég held að þetta sé út af tölvumúsinni.

Jæja það styttist heldur betur í útlandaferð í Unnar og Danna kot. Bara helgin og svo tveir vinnudagar. Jeij!! Held að það sé alveg nauðsyn að reyna að fara amk einu sinni á ári til útlanda, það er svo refreching eitthvað að breyta aðeins um umhverfi. Við ætlum að vera í viku hjá Unni og Danna og vera svo í þrjá og hálfan dag í Köben. Pöntuðum okkur hótel nálægt aðallestarstöðinni og tívolíinu. Reyndar var þetta víst einu sinni hverfið þar sem hórurnar voru, en á ekki að vera þannig núna, en það er nú allt í lagi bara því þegar mann vantar gjaldeyri getur maður bara stokkið út á næsta horn...hahaha...ég er svo fyndin. Biggi er búinn að panta borð á uppáhalds staðnum sínum Peder Öxe...það er pottþétt ekki skrifað svona!! Ég hlakka til að borða þar því hann er sko oft búinn að segja mér hvað þetta er æðislegur staður, vona að hann mæti væntingum.

Jahhh...svei mér þá ef ég er ekki bara orðin ein eftir...núna er klukkan sko orðin hálf...common people hvernig væri að vinna á föstudögum líka...hehehe

Jæja ætla að láta þetta nægja í bili

þriðjudagur, apríl 04, 2006

7 dagar til Denmark

En hvað er málið með veðrið??? Það var snjór í morgun og núna er bara hellidemba. Rosalega grámyglulegt úti.

En já það styttist í utanlandsferð...jibbí jei. Ég vona að við fáum æðislegt veður því við verðum með bílaleigubíl og ætlum að keyra eitthvað í kringum Kolding og skoða okkur um. Ég hlakka svo til að koma til hennar Unnar minnar. Hef ekki heimsótt hana síðan í desember 2002 og hún er búin að flytja 2 sinnum síðan. Komin tími til að kíkja á hana.

Jæja kominn tími til að fara og snýta mér.

mánudagur, apríl 03, 2006

8 dagar til Denmark

Sorrý people...ég hef ekki verið í stuði til að blogga að undanförnu...sumir vita af hverju og aðrir ekki. Ætla ekki að fara nánar út í það hérna.

Vorið er greinilega á leiðinni...því ég er komin með kvef. Fæ voða oft kvef á vorin og sumrin. Nebbinn á mér er orðinn stór og rauður og aumur. Í gær hélt ég að ég hefði snýtt öllum vökva úr líkamanum mínum. Var alveg orðin þurr í augunum og var rosalega þyrst og drakk og drakk vatn. Hressandi!!

Jæja bara smá svona...láta vita að ég er hérna enn.