föstudagur, desember 22, 2006

Jólatréð í stofu stendur,

stjörnuna glampar á.
Kertin standa á grænum greinum,
gul og rauð og blá.

Já nú er jólatréð bara komið upp. Settum það upp á miðvikudagskvöld, gátum hreinlega ekki beðið lengur. Svo var tréð líka í stórhættu úti á svölum. Það hefði örugglega bara fokið út í veður og vind. Við þurftum alla vega að binda grillið okkar við svalirnar því það var bara farið að skauta fram og aftur!!! Stórhættulegt!!!

Núna er casual friday í vinnunni. Tilefnið er að það eru að koma jól og við ætlum að vera með vöfflukaffi hér seinna í dag. Finnst hálf kjánalegt að sitja hérna í gömlum buxum af Guðrúnu systur og í rauðum Converse skóm, en það verður bara að hafa það. Ég hefði að sjálfsögðu mætt í gallabuxum ef ég myndi nú bara passa í þær :D En þessar hermannabuxur eru sko það þæginlegasta í heimi svo þetta er bara allt gott. Reyndar voru nú sumir að brjóta casual regluna og mættu bara í jakkafötum og yfirmaður/kona mín segist finnast óþæginlegt að vera í gallabuxum. Hún er alla vega ekki í dragt í dag svo hún er bara nokkuð casual miðað við aðra daga kannski. Ég mætti með jólasveinahúfuna mína líka en hún verður bara sett upp í kaffinu. Svo fáum við að hætta fyrr í dag voða notó. Ég ætla að nota tímann og fara í Bónus að versla og vona að ég sleppi við allra mestu kösina. Held að ég sé búin að plata Guðrúnu systir með mér í þann leiðangur. Mig vantar nefnilega pokahaldara því ef ég er að lyfta mikið, þó það eru ekki nema innkaupapokar, fæ ég svo mikla samdrætti og það er ekki nógu sniðugt. Seinast þegar ég fór í stórinnkaup ein þá var ég allt kvöldið með þvílíka samdrætti. Lá bara upp í rúmi og reyndi að slappa af. Maður má víst ekki gera of mikið þegar svona kemur því maður vill nú ekki fara af stað mikið fyrir tímann.

Jóla jól, kaupa hjól

miðvikudagur, desember 20, 2006

Það á að...

...gefa börnum brauð að bíta í á jólunum. Kertaljós og klæðin rauð svo komist þau úr bólunum.

Jólaumferðin er alveg ótrúlega skemmtileg, finnst ykkur það ekki? Ji minn eini, segi ég nú bara. Enginn vill hleypa neinum og fólk malar í símann eins og það fái borgað fyrir það. Svona er hinn eini sanni jólaandi. Maður vill helst bara halda sig innan dyra, en það er bara ekki hægt þegar maður þarf að mæta til vinnu og á eftir að kaupa tvær jólagjafir.

Mig langar að nota tækifærið og minna fólk á að skrifa eitthvað fallegt í commentin, veit fyrir víst að nokkrir fjölskyldumeðlimir (þið vitið hverjir þið eruð) voru búnir að lesa bloggið mitt í gær en skrifuðu ekki neitt. Just do it! Ef ég leyfi mér nú að nota slagorð Nike ;)

Ég fór í meðgöngusund í gær sem er kannski ekki frásögu færandi, nema það að ég lagði extra snemma af stað því ég átti von á svo mikilli umferð. En svo var bara engin umferð og allir greinilega í Kringlunni, Smáralindinni og niðrí bæ. Ég beið þá bara smá tíma út í bíl svo ég þyrfti ekki að húka í sturtu endalaust. Við vorum síðan bara tvær í tímanum, voða notalegt. Greinilegt að margar hafa verið fastar í jólageðveikinni, eða bara hreinlega orðnar of þreyttar í jólaösinni til að mæta. Næsti og þarnæsti tími verða í Reykjavík, á Hrafnistu, frábært að þurfa ekki að keyra alla leið upp á Reykjalund svona rétt fyrir jólin og á milli jóla og nýárs.

Jæja blaður blaður blaður og um ekki neitt.
Adju

þriðjudagur, desember 19, 2006

Það heyrast jólabjöllur...

...og ofan úr fjöllunum fer, flokkur af jólakörlum til að gantast við krakkana hér!!

Jæja senn líður að jólum og það er ekta íslenskt jólaveður úti, rok og rigning. Jibbí jei!! Jólagjafa innkaupin eru að verða komin, fórum í gærkvöldi í Smáralindina og náðum bara alveg að gera heilan helling á einum og hálfum tíma. Powershopping!! Svo er búið að pakka þessu öllu saman inn og allt reddí bara. Ég hef nefnilega óstjórnlega þörf fyrir að klára að pakka inn um leið og gjöf er keypt, hef ekki verið svona áður svo ég er að velta fyrir mér hvort þetta gæti tengst óléttunni. Venjulega sat maður á gólfinu inn í herbergi á þorláksmessu og pakkaði öllu klabbinu inn þá. Núna er bara komin the ultimate packingstation á borðstofuborðið og allt til alls :) I like it og leyfi Bigga greyinu ekki að koma nálægt innpökkun. Nema náttúrulega á jólagjöfinni frá honum til mín :)

Þetta verða að öllum líkindum bara róleg jól. Aðfangadagskvöld verðum við í sitthvoru lagi, ég í Haðalandinu en Biggi í Grundarásnum. Svo á jóladag verður víst ekki jólaboð í minni fjölskyldu í fyrsta skipti síðan ég man bara ekki hvenær, þannig að ég verð bara á náttfötunum til svona kl. 17. En jólaboðið hjá ömmu og afa hans Bigga er að sjálfsögðu á sínum stað á jóladagskvöld með öllu tilheyrandi. Þannig að núna förum við bara í eitt boð á jóladag. Svo ætlar mamma að bjóða okkur í mat annan í jólum svo að við verðum eitthvað öll saman með tengdasonunum líka :) En ætli maður verði ekki bara í rólegheitum svo um áramótin því áramótaboðið í fjölskyldunni minni verður víst ekki heldur. Það eru bara allir að leggja niður hefðirnar...usss. Það hentar mér reyndar ágætlega að jól og áramót verði bara róleg því þetta er tími sem ég þarf að nota til að hlaða svolítið batteríin svo ég geti haldið áfram að vinna fulla vinnu eitthvað áfram. Maður er nú ekki alveg eins orkumikill og maður var hérna áður...gæti sofnað oft á dag fram á borðið mitt...hehe

Jæja nóg af þessu blaðri í bili

mánudagur, desember 11, 2006

Broddgöltur?

Nei mannbroddar!!! Já ég hélt að ég myndi nú aldrei láta sjá mig með svoleiðis á ævi minni (maður er nefnilega svo kúl!!) En ég fór nú bara í hádeginu í dag og fjárfesti í mannbroddum. Takk fyrir og góðan daginn!! Maður getur nú ekki verið það bjargarlaus að komast ekki heim að dyrum því tröppurnar heima eru bara dettigildra fyrir óléttar konur. Mæli með því við allar óléttar konur að eiga svona til, þó ekki sé nema bara til að komast inn og úr bíl heima hjá sér.

Þetta voru viskuorð dagsins :D