mánudagur, mars 30, 2009

Heiðarleg tilraun

Ég reyndi að koma mér og mínum á skíði í gær, en það tókst ekki. Hrafn svaf svo lengi að það tók því ekki að keyra upp í Skálafell fyrir kannski hálftíma á skíðum. Skelltum okkur því bara út á snjóþotu sem var hálf misheppnað líka þar sem það var ekki sérlega mikill snjór, fórum í Breiðholtsbrekkuna. Borðuðum þá bara nesti úti í skítakulda...hehe...voða mislukkuð eitthvað. Enduðum daginn svo út að borða á Hamborgarabúllunni með tengdamömmu, Ragnheiði og Daníel.

Langar að prófa myndfídusinn hérna eina ferðina enn þar sem þetta hefur gengið frekar brösulega í gegnum tíðina. Set inn mynd af vindgalla sem ég saumaði á Hrafn síðasta sumar.


sunnudagur, mars 08, 2009

Afmælishelgin gengin í garð

Hér var alsherjar partí í gær. Fögnuðum 2ja ára afmæli snáðans með pom og prakt, þetta minnti á fermingarveislu. Endalausar kökur og veitingar, á tíma leit út fyrir að við værum með allt of mikið. En þegar síðustu gestirnir skriðu út um kvöldið var búið að taka vel af kræsingunum. Bara þæginlega miklir afgangar til að bjóða með kaffinu í dag. Eigum von á ömmu og afa í Vorsabæ og Hrönn, Hauk og Kristni Ara. Erum öll yfir okkur ánægð með gærdaginn, sérstaklega sá minnsti sem fékk fullt af fallegum gjöfum. Takk allir fyrir. Mikið óskaplega vorum við hjónin þreytt í gærkvöldi, létum okkur þó hafa það að ganga frá svo við þyrftum ekki að byrja daginn á því. Hefðum heldur aldrei getað þetta án uppþvottavélarinnar okkar góðu.

Það leit þó ekki sérlega vel út hérna á miðvikudagskvöldið. Ég ætlaði að baka brauðbollur og gera Rice-crispies kökur fyrir afmælið. Ákvað að þrífa eldavélina vel áður en ég hæfist handa, tók upp stálullina, sápu, bursta og svona þetta helsta. Þegar ég var búin að skrúbba vélina tandurhreina þurfti ég að velgja mjólk fyrir bollurnar. Það heppnaðist ekki betur en svo að þegar ég kveikti undir pottinum sló út rafmagninu á allri íbúðinni. Inn úr barnaherbergi heyrðist: ekki slökkva ljósin!! Híhí sumir að fara að sofa. Eldavélin gerði þetta í tvígang og við orðin frekar smeik, Biggi kominn með slökkvitækið í hendurnar. Allar aðrar hellur virtust þó virka sem og ofninn. Okkur stóð ekki alveg á sama. Ég náði að velgja mjólkina á annari hellu og bakaði þessar dýrindis bollur. Ákváðum að prófa vandræðahelluna áður en við fórum að sofa, þá virkaði hún fínt og sló ekki rafmagninu út. Við tókum samt snarlega ákvörðun um að fá okkur loksins nýja eldavél (búið að vera í deiglunni). Vorum búin að fara áður og skoða nokkrar. Keyptum fína AEG vél frá Br. Ormsson, hún var akkúrat á tilboði (heppin við). Þurftum að punga út tæpum 100 þús kalli fyrir herlegheitin, gátum notað gjafabréfin okkar og fengum auka lækkun þar sem þetta var sýningareintakið. Ætti maður að taka það fram að vélin kostaði upphaflega rúmlega 200 þús og lækkuð niður í 129 þús. Fáum nýju vélin á mánudaginn og þá get ég farið að baka á 3 hæðum, snilld!!

þriðjudagur, mars 03, 2009

Aðeins að signa mig inn

Ég er ekki mikill bloggari, ekki hægt að þræta neitt fyrir það. En mér finnst samt mjög gaman að koma svona aðeins inn á þetta af og til. Hef nú ekki frá mörgu að segja þar sem undanfarnir dagar hafa farið í veikindi. Við Hrafn ætlum þó að skella okkur smá út í snjóinn á eftir. Það léttir alltaf svo yfir mér þegar snjórinn kemur, allt verður svo bjart og fallegt. Bara notalegt að hafa snjóinn.

Annars er afmælisundirbúningur að hefjast þar sem við ætlum að halda upp á 2ja ára afmæli Hrafns á laugardaginn. Ákváðum að gera það helgina fyrir afmælisdaginn sjálfan því okkur langar í skíðaferð helgina eftir. Hrikalega lélegir foreldrar að stinga bara af á skíði. Hann verður þó í góðu yfirlæti hjá föðurömmu sinni og afa. Já það er margt sem þarf að huga að fyrir svona afmæli, gestalistinn er skelfilega langur. Erfitt að eiga svona marga að, ha! En við gerum bara gott úr þessu og deilum öllum fjöldanum niður á 2 holl. Fyrra hollið kemur þá í kaffi en seinna í pylsupartý. Erum við ekki sniðug? Ég er alveg ferlega óæfð í svona afmælum og veit ekki alveg hvað ég á að baka, svo eru líka svo margir í kringum okkur með óþol og ofnæmi. Held samt að það verði ómögulegt að sinna þörfum allra, því miður, en ég ætla að reyna eitthvað sniðugt. Er bara ekki alveg nógu vel að mér í þessum efnum þar sem við erum blessunarlega laus við svona, amk ennþá.

Ef einhver sem rambar hér inn (ef það er þá einhver) er vel að sér í fæðuóþoli og ofnæmum og er með góðar uppskriftir má sá hinn sami endilega láta mig vita :)