miðvikudagur, október 22, 2008

Hvað hefur gerst?

Fyrir rúmri viku síðan fór ég með veskið niður á lögreglustöð hérna á Dalveginum. Það var nú ekki mjög merkilegt hvernig var tekið á móti þessu. Ég útskýrði mál mitt í afgreiðslunni og sá góði maður sem var þar tók við veskinu, tók niður nafn mitt og síma. Svo hef ég ekki heyrt meira af veskinu eða stúlkunum. Einnig ekkert heyrt í stúlkunum sjálfum né ömmum þeirra ;) Ég nenni því ekki að pæla meira í þessu lengur en vona að veskið sé komið til skila.

Að öðru þá er jólahreingerning byrjuð á þessu heimili og í gær var ísskápurinn tekinn í gegn. Mjög sniðugt að fara í Bónus og versla helling og ætla svo að afþýða og læti...hehe. Það var nú ekki nema 1°C hiti svo ég skellti öllu bara í poka og út. Nema það kjötmeti sem var í frysti fór í kæliboxið. Á meðan ég var að láta frystinn "bráðna" bakaði ég kanilsnúða :) Þannig að ég var í eldhúsinu frá því við komum heim úr Bónus, sem var um kl. 18:30, og þar til við fórum að sofa um miðnætti. Ég er búin að lofa sjálfri mér að fá sem mest frí úr eldhúsinu í dag. Bara rétt til að gefa okkur Hrafni að borða og jú kannski elda kvöldmatinn.

Eitt það leiðinlegasta sem ég geri er að þrífa skápa. Það er eitthvað við það að þurfa að taka allt út og þrífa og raða inn aftur. Ætla þó að taka alla skápa á heimilinu fyrir jólin. það er kominn tími á þetta. Ég er alla vega byrjuð, búin með hálft eldhúsið. En þá eru 3 mjög stórir fataskápar eftir, púfff!!!! Vill einhver koma og gera þetta fyrir mig?

Af handavinnu er ég búin að gera helling síðan ég skrifaði síðast handavinnublogg. Ég er t.d. búin með peysu á Hrafn. Kláraði hana í sumar...hmmm...og nú man ég ekki meira en ég veit það var eitthvað annað. Jú ég prjónaði mér húfu, er svo hálfnuð með buxur í stíl við peysuna á Hrafn og einn ullarsokk. Svo var ég að prjóna um daginn mjög litla hyrnu úr lopa. Hún mun verða notuð sem hálsklútur.

Jæja nóg í bili

föstudagur, október 10, 2008

Þjófar og bófar

Já það er nú ekki öll vitleysan eins!!!

Ég fékk símhringingu ca. tvö í dag frá stúlku sem sagðist starfa hjá Nova. Hún var að koma til skila skilaboðum um að debetkortið mitt hafi fundist í strætó. Hmmm ég kannaðist nú ekki við að hafa týnt veskinu mínu og hvað þá kortinu sem í því er. Sérstaklega þar sem ég hafði farið í Bónus fyrir hádegi. Hún sagði mann hafa hringt frá strætó, sagði hann greinilega ekki íslenskan en hann talaði samt íslensku. Þá fóru að renna á mig tvær grímur. Ég sat nefnilega í strætó á miðvikudagskvöld að telja farþega, tek það fram að ég geri þetta mér ekki til skemmtunar heldur var að gera þetta fyrir strætó. Ég hélt því að þetta hafi verið vagnstjórinn umrætt kvöld en skildi þó ekki af hverju debetkortið mitt væri að koma við sögu og þá hvaðan af síður af hverju þessi maður ætti að vera að hringja í mig.

Ég var þegar þarna kom við sögu búin að athuga í veskið mitt og allt á sínum stað. Hvað um það ég hafði fengið símanúmer uppgefið til að hringja í og hringdi. Þá var það einhver annar vagnstjóri en hann hafði samt sem áður fundið debetkortið mitt og gat lesið upp kennitöluna mína og það var meira!! Kortið var í veski...hmmmm...ekki mitt veski alla vega. Hann sagðist mundu skila veskinu inn í sjoppuna í Mjóddinni á mínu nafni og ég gæti sótt það þangað. Ég þakkaði bara pent fyrir.

Á þessum tímapunkti var ég búin að átta mig á að þetta debetkort tilheyrði mér fyrir einu ári og 9 mánuðum. Þetta var s.s. úr veskunu mínu sem týndist í janúar 2007. Ég fór því labbandi niður í Mjódd með Hrafninn minn með mér og sótt þetta veski. Þar var jújú korið mitt og ekki mikið annan en þó skírteini með nafni eiganda veskisins. Ég gerðist auðvita detective og hafði upp á manneskjunni, fann símanúmer og alles. Umræddur þjófur er fædd 1990. Ég hrindi svo og sagði að ég hefði veskið hennar sem hafi fundist í strætó og þjófur svara: "glæsilegt að það hafi fundist". Þá kynnti ég mig með nafni og eitthvað heyrðist þá minna eftir það!!!

Alla vega þá kom upp úr krafsinu að hún hafði fengið kortið hjá vinkonu sinni ég fékk nafn og síma hjá þeim þjóf. Hringdi, en þjófur sagðist ekkert kannast við þetta og hin væri ekki vinkona sín lengur og þetta væri bara hefnigirni eins og hún kallaði þetta. Ég hringdi því í þjóf A og sagði þetta stæði nú bara á henni og hún skildi fara að segja mér sannleikann. Þjófi A tókst þá að segja mér að þjófur B hafi verið að vinna í bakaríinu sem ég gleymdi veskinu mínu í. Úff ég var orðin frekar reið þarna því ég fór í bakaríið á sínum tíma og ung stúlka sagði mér að ekkert hefði fundist. Að öllum líkindum var það þjófur B sem laug svona blákalt upp í opið geðið á mér. Hvað um það ég sagði þjófi A að ég vildi fá öll kortin til baka og hún fengi amk ekki veskið sitt fyrr en ég fengi einhvern botn í þetta og að ég færi með þetta til lögreglunnar. Reyndi að hringja aftur í þjóf B til að reyna að fá sannleikann upp úr henni og hvar restin af kortunum mínum væru niðurkomin. Hún svaraði mér ekki. Svo hringir þjófur A í mig aftur sjálfandi á beinunum og er eitthvað að reyna að koma sér út úr þessu á því að kortin væri hvort eð er orðin útrunnin. Mér er svona slétt sama um það, vil bara fá persónuskilríki mín aftur því ég vil ekki að þau séu í umferð. Ökuskírteinið er m.a. ekki útrunnið. Ég sagði því þjófi A að hún skildi bara finna þessi kort fyrir mánudag því þá hugsanlega gæti ég hugsað mér að sleppa því að fara til lögreglunnar. Þjófur B hringir svo aftur í mig og ég átti langt símtal þar sem hún játar að hafa látið hina fá veskið en að hún hafi sko ekki stolið, enda hvernig geti maður stolið einhverju sem maður finnur!!! Er ekki verið að grínast með þroskan á þessum bæ??? Hún segist þó hafa þroskast helling síðan þetta var en ég rak það ofan í hana með því að segja henni að þroskaður einstaklingur hefði ekki byrjað á að ljúga því að hafa ekkert með þetta að gera. Hún baðst þó afsökunar þegar ég spurði ekki hvort hún ætlaði að minnsta kosti ekki að biðjast afsöknunar á að stela frá mér. En ekki var það mjög einlægt hjá henni. Ég sagði henni bara það sama og hinni að ég vildi fá kortin mín úr umferð, en að öðrum kosti myndi ég fara til lögreglunnar.

Í hverju er ég lent??? Og ekki nóg með það að ég hafi haft samskipti við þjófana en haldiði að amma þjófs B hringi ekki í mig núna kl. 20:30 og reyni að fá mig ofan af því að hringja í lögregluna með því að segja mér sjúkrasögu barnabarns síns!?!?!?! What!!! Kemur það mér eitthvað við að stúlkan hafi verið með svo svaðalega anorexíu og bulimíu á þessum tíma þegar hún stal veskinu mínu og sé bara að batna núna og að þetta muni bara ganga af henni dauðri. Kallar mig svo bara þrjóska og ég sé greinilega ekki mjög þroskuð, ég sé greinilega mjög ung og óreynd og viti bara ekki neitt þegar ég segi ekki bara eins og skot: "ok ég skal ekki fara með þetta til löggunnar". Ég held nú síður kona góð, ef eitthvað er þá er ég ennþá æstari í að athuga hver réttur minn er. Ekki misskilja að ég vilji þjóf B feigan en ég held bara að þessar stúlkur hefðu gott af því að komast að því að ekki er alltaf hægt að væla sig út úr öllu. Eða senda ömmu sína til að vinna skítaverkin. Hvurslags lið er þetta og er mig ekki að dreyma.

Ég vildi eiginlega óska að þjófur A hefði ekki týnt veskinu sínu í dag og að ég væri í sömu stöðu og ég var í kl 12 á hádegi. Þ.e. að vera búin að steingleyma elskulega veskinu mínu sem hvarf. Hvað mynduð þið gera, ef einhver er að lesa? Á ég að hafa samband við lögregluna eða láta þetta gott heita? Veit alla vega að mig langar ekkert að sjá framan í þjóf A en ég verð þó að skila henni veskinu hennar.