miðvikudagur, október 22, 2008

Hvað hefur gerst?

Fyrir rúmri viku síðan fór ég með veskið niður á lögreglustöð hérna á Dalveginum. Það var nú ekki mjög merkilegt hvernig var tekið á móti þessu. Ég útskýrði mál mitt í afgreiðslunni og sá góði maður sem var þar tók við veskinu, tók niður nafn mitt og síma. Svo hef ég ekki heyrt meira af veskinu eða stúlkunum. Einnig ekkert heyrt í stúlkunum sjálfum né ömmum þeirra ;) Ég nenni því ekki að pæla meira í þessu lengur en vona að veskið sé komið til skila.

Að öðru þá er jólahreingerning byrjuð á þessu heimili og í gær var ísskápurinn tekinn í gegn. Mjög sniðugt að fara í Bónus og versla helling og ætla svo að afþýða og læti...hehe. Það var nú ekki nema 1°C hiti svo ég skellti öllu bara í poka og út. Nema það kjötmeti sem var í frysti fór í kæliboxið. Á meðan ég var að láta frystinn "bráðna" bakaði ég kanilsnúða :) Þannig að ég var í eldhúsinu frá því við komum heim úr Bónus, sem var um kl. 18:30, og þar til við fórum að sofa um miðnætti. Ég er búin að lofa sjálfri mér að fá sem mest frí úr eldhúsinu í dag. Bara rétt til að gefa okkur Hrafni að borða og jú kannski elda kvöldmatinn.

Eitt það leiðinlegasta sem ég geri er að þrífa skápa. Það er eitthvað við það að þurfa að taka allt út og þrífa og raða inn aftur. Ætla þó að taka alla skápa á heimilinu fyrir jólin. það er kominn tími á þetta. Ég er alla vega byrjuð, búin með hálft eldhúsið. En þá eru 3 mjög stórir fataskápar eftir, púfff!!!! Vill einhver koma og gera þetta fyrir mig?

Af handavinnu er ég búin að gera helling síðan ég skrifaði síðast handavinnublogg. Ég er t.d. búin með peysu á Hrafn. Kláraði hana í sumar...hmmm...og nú man ég ekki meira en ég veit það var eitthvað annað. Jú ég prjónaði mér húfu, er svo hálfnuð með buxur í stíl við peysuna á Hrafn og einn ullarsokk. Svo var ég að prjóna um daginn mjög litla hyrnu úr lopa. Hún mun verða notuð sem hálsklútur.

Jæja nóg í bili

Engin ummæli: