þriðjudagur, ágúst 11, 2009

Hnapparnir mínir

Fyrir rúmum 3 árum lést öldruð ömmusystir mín. Hún átti heilmikið tölusafn í tréboxi, ég fékk að eiga þetta box og í því leynast þvílíkar gersemar. Ég á heilan helling af fallegum hnöppum sem myndu sóma sér vel á hvaða lopapeysu sem er. Svo nú er bara að hefjast handa!!

En áður en ég byrja á lopapeysu á sjálfa mig ætla ég að reyna að klára nokkur verk sem eru á prjónunum. Er búin að vera að prjóna "Vesti goes hipp" í sumarfríinu og er hálfnuð með það fjórða, búin að gefa eitt og á eftir að ganga frá og þvo tvö sem verða gjafir. Hendi inn myndum við tækifæri.

Svo er ég með sokkapar í gangi á eiginmanninn og hneppta kaðlapeysu á þann stutta (þar koma fínu hnapparnir mínir við sögu og ég er búin að velja gersemarnar á peysuna). Ungbarnapeysan sem ég skrifaði um í síðustu færslu hefur verið rekin upp nokkrum sinnum og svo komst ég að því að ég á ekki nægilega mikið af fína New York garninu mínu í hana. Svo hún verður rekin alveg upp og garnið notað í kraga á leikskólastrákinn fyrir veturinn. Ætli ég fari ekki í garnleiðangur fyrir þessa fínu peysu.

Síðan, þegar ég er búin með allt ofantalið, ætla ég að gera eins og eina síða hneppta lopapeysu á MIG. Loksins eitthvað á mig sjálfa :)

Engin ummæli: